Vélar bandaríska flugfélagsins American Airlines voru kyrrsettar fyrr í dag. Gilti kyrrsetningin á öllum flugvöllum innan Bandaríkjanna. Forsvarsmenn flugfélagsins sögðu um frávik að ræða sem hafi orsakast af tæknilegum vandamálum.
Flugmálastjórnin vestra sagði um kyrrsetningu á landsvísu að ræða. Fyrir rúmum fimm mánuðum kyrrsetti American Airlines, ásamt öðrum flugfélögum, vélar sínar vegna tæknibilunar í kjölfar hugbúnaðaruppfærslu.
Kyrrsetningin varði ekki lengi en flugmálastjórn tilkynnti um afléttingu hennar upp úr klukkan eitt í dag. Í tilkynningu sagði að hætt hafi verið við kyrrsetningu véla félagsins.
American Airlines nefndu að þetta hafi gerst á versta mögulega tíma, en aðfangadagur jóla er mjög stór ferðadagur í Bandaríkjunum.
Svo virðist sem afleiðingarnar verði ekki stórkostlegar og að kyrrsetning muni ekki hamla flugfarþegum að komast á milli staða í dag.