Rúmenar segjast ekki hafa greint rússneska eldflaug fljúga innan lofthelgi landsins eins og Úkraínumenn hafa sagt. Rúmenía er aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO.
Fréttir bárust af því að Rússar hefðu skotið Kalibr-eldflaugum á loft frá Svartahafi í morgun en skotmarkið var orkukerfi Úkraínumanna. Yfir 70 flugskeyti og yfir 100 drónar fóru í loftið í 13. stóru árás Rússa á orkukerfi Úkraínumanna á árinu.
Úkraínski herinn skaut fleiri en 50 flugskeytum niður en einhver náðu skotmörkum sínum. Rafmagnslaust er á stóru svæði í landinu.
„Rúmenski herinn var upplýstur af þeim úkraínska að um klukkan 7.30 í morgun hafi rússnesk eldflaug flogið innan lofthelgi Moldóvu og í um tvær mínútur innan lofthelgi Rúmeníu,“ er haft eftir talsmanni varnarmálaráðuneytis Rúmeníu.
„Af gögnum að dæma, sem fengin eru í gegnum búnað frá NATO, er ekki hægt að staðfesta að flaugin hafi rofið rúmenska lofthelgi.“
Landamæralögregla í Moldóvu sagðist hafa komið auga á rússneskt flugskeyti, sem þó hafi ekki rofið lofthelgi landsins. Þó sé um bráðabirgðaupplýsingar að ræða og að málið væri í rannsókn.
„Á meðan jólum er fagnað í löndum okkar kýs Kreml eyðileggingu, sem beint er að orkuinnviðum Úkraínu,“ sagði Maia Sandu, forseti Moldóvu, á samfélagsmiðlinum X.
While our countries celebrate Christmas, Kremlin chooses destruction—targeting Ukraine’s energy infrastructure and violating Moldova’s airspace with a missile, actions that clearly violate international law. Moldova condemns these acts and stands in full solidarity with Ukraine.
— Maia Sandu (@sandumaiamd) December 25, 2024