Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmir árásir Rússa á úkraínska orkuinnviði á jóladag.
Úkraínumenn vöknuðu í morgun er loftvarnarflautur fóru í gang klukkan 5.30 á staðartíma (3.30 að íslenskum tíma).
Skömmu síðar bárust fréttir af því að Rússar hefðu skotið Kalibr-eldflaugum á loft frá Svartahafi.
„Pútín valdi jólin vísvitandi til árása. Hvað gæti verið ómannúðlegra? Yfir 70 flugskeyti og yfir hundrað drónar. Skotmarkið er orkukerfið okkar,“ segir Selenskí.
Árásin var 13. stóra árásin á raforkukerfi Úkraínu á þessu ári.
Ein eldflauganna fór í gegn moldóvska og rúmenska lofthelgi að sögn Andrí Síbiga, utanríkisráðherra Úkraínu. Fordæmir hann árásirnar og kallar þær „jólahrylling“
Að sögn Selenskís skaut úkraínski flugherinn fleiri en 50 flugskeyti niður. Segir hann að einhver flugskeyti hafi náð skotmörkum sínum.
Að minnsta kosti einn lést og er rafmagnslaust á stóru svæði í landinu.
Úkraína heldur jólin formlega 25. desember í annað sinn í ár. Í fyrra færði ríkisstjórn landsins jólin, sem áður voru haldin 7. janúar, þegar flestir rétttrúnaðarmenn halda hátíðina.
Að siðvenju hafa jólahátíðarhöld Úkraínumanna fylgt júlíanska tímatalinu, sem og Rússa, þar sem jólin eru haldin þann 7. janúar.
Til þess að aðskilja sig enn meir frá Rússlandi tóku Úkraínumenn upp vestræna hefð og halda nú jólin samkvæmt gregoríska tímatalinu, þar sem jóladagur fellur á 25. desember hvers árs.
„Rússneska illskan mun ekki brjóta Úkraínu niður og mun ekki eyðileggja jólin,“ segir Selenskí.