Ghebreyesus á flugvellinum sem Ísraelar réðust á

Framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus. AFP/Fabrice Coffrini

Tedros Adhanom Ghebreyesus, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar WHO, var staddur á Sanaa-flugvelli í Jemen er Ísraelsher hóf loftárásir á flugvöllinn í dag.

Segir Ghebreyesus að hann og starfsfólk á vegum Sameinuðu þjóðanna og WHO séu heil á húfi en einn í áhöfn flugvélarinnar hafi særst í árásinni.

Nokkrum metrum frá árásinni

Þá segir í færslu sem hann birti að skemmdir hafi orðið á innviðum á flugvellinum og að minnsta kosti tveir hafi látið lífið.

Segir hann að flugstjórnarturn hafi skemmst í árásinni og sömuleiðis brottfararsetustofa sem hafi verið í nokkurra metra fjarlægð frá staðnum sem hann og teymi sitt hefðu verið á.

Flugbrautin hafi einnig orðið fyrir skemmdum. 

Ghebreyesus var í Jemen í þeim tilgangi að semja um lausn starfsfólks SÞ sem eru þar í haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert