Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur leyst upp sambandsþingið og Þjóðverjar munu því ganga til kosninga þann 23. febrúar 2025.
Þetta gerist í kjölfar þess að ríkisstjórn Olafs Scholz kanslara sprakk í síðasta mánuði og vantraust var samþykkt á hendur Scholz fyrr í desember.
„Ég hef ákveðið að leysa upp 20. sambandsþing Þýskalands og stefni að því að kjördagur verði þann 23. febrúar,“ sagði forsetinn í ræðu í morgun, þar sem hann tók einnig fram að „pólitískur stöðugleiki væri dýrmætur kostur“.
Þingið samþykkti vantrauststillögu á hendur Scholz þann 16. desember en þriggja flokka ríkisstjórn Scholz hafði þá sprungið mánuði fyrr.
Flokkur frjálslyndra demókrata sleit stjórnarsamstarfinu í nóvember, eftir að Scholz rak Christian Lindner fjármálaráðherra úr embætti.
Síðan þá hafa Sósíaldemókratar, flokkur Scholz, og Græningjar leitt minnihlutastjórn. Eftir að stjórn Scholz sprakk óskaði hann eftir því að þingið greiddi atkvæði um traust til sín.