Forseti Þýskalands leysir upp þingið

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands. AFP/Odd Andersen

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur leyst upp sambandsþingið og Þjóðverjar munu því ganga til kosninga þann 23. febrúar 2025.

Þetta gerist í kjölfar þess að ríkisstjórn Olafs Scholz kanslara sprakk í síðasta mánuði og vantraust var samþykkt á hendur Scholz fyrr í desember.

„Ég hef ákveðið að leysa upp 20. sambandsþing Þýskalands og stefni að því að kjördagur verði þann 23. febrúar,“ sagði forsetinn í ræðu í morgun, þar sem hann tók einnig fram að „pólitískur stöðugleiki væri dýrmætur kostur“.

Bað sjálfur um að kosið yrði um vantraust

Þingið samþykkti van­traust­stil­lögu á hend­ur Scholz þann 16. desember en þriggja flokka ríkis­stjórn Scholz hafði þá sprungið mánuði fyrr. 

Flokk­ur frjáls­lyndra demó­krata sleit stjórn­ar­sam­starf­inu í nóvember, eft­ir að Scholz rak Christian Lindner fjár­málaráðherra úr embætti.

Síðan þá hafa Sósí­al­demó­krat­ar, flokk­ur Scholz, og Græn­ingj­ar leitt minni­hluta­stjórn. Eft­ir að stjórn Scholz sprakk óskaði hann eft­ir því að þingið greiddi at­kvæði um traust til sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert