Heitar sturtur skaðlegar: Mælt með moðvolgu vatni

Kona að þvo sér um hárið. Myndin er úr safni.
Kona að þvo sér um hárið. Myndin er úr safni. mbl.s/Ásdís

Heitar sturtur ættu að vera dekur sem ekki ætti að njóta daglega. Í staðinn á fólk að fara í moðvolgar sturtur, það er ef það vill ekki skemma húð sína og hár.

Þetta segja húðlæknar og sérfræðingar vestanhafs en í nýrri grein í New York Times er farið ítarlegra yfir málið.

Ættu að vera dekur

Dr. Victoria Barbosa húðlæknir segir að vissulega séu ýmsir kostir sem fylgi heitum sturtum en þeir kostir séu þó ekki fyrir húðina.

Ekki eru til miklar rannsóknir um áhrif heits vatns á húð fólks en flestir sérfræðingar séu sammála um að mjög heitar sturtur fjarlægi náttúrulegar olíur og rakavaldandi efni af fólki og að best sé að fara í moðvolga sturtu.

Er það mat Dr. Barbosa að heitt bað eða heitar sturtur ættu að vera dekur fyrir fólk en ekki dagleg iðja.

Geti valdið skaða á ysta lagi húðarinnar

Þá er það mat sérfræðinga að notkun heits vatns, sérstaklega þegar því er blandað saman við sápur sem innihalda ilm- og sterkefni, geti valdið miklum skaða á ysta lagi húðarinnar, yfirhúðinni.

Að sögn húðsjúkdómafræðingsins Dr. Paola Baker samanstendur yfirhúðin af dauðum húðfrumum sem eru umkringdar efnum á borð við keramíð, kólesteról og fitusýrum sem hjálpa til við að viðhalda raka í húðinni og vernda hana fyrir ertandi og ofnæmisvaldandi efnum í umhverfinu.

Segir hún að á yfirhúðinni sé svo að finna þunnt lag sem kallast sýrumöttull (e. acid mantle) og samanstendur hann af amínósýrum, sýrum sem finnast í svita, og fituefni sem viðheldur raka og losnar úr kirtlum nálægt hársverðinum. Þannig heldur þetta þunna lag húðinni sterkri og verndar hana gegn bakteríum.

Frekar á fólk að fara í moðvolgar sturtur, það er …
Frekar á fólk að fara í moðvolgar sturtur, það er ef það vill ekki skemma húð sína og hár. Ljósmynd/Colourbox

Er það mat húðsjúkdómafræðingsins Dr. Trinidad Montero-Vílchez að þegar svo fólk fer í mjög heitar sturtur geti þessi fituefni fjarlægst og valdið þá þurri húð og haft þau áhrif að fituefnin missi skipulagða uppbyggingu þeirra.

Stóð Dr. Montero-Vílchez t.a.m. að rannsókn þar sem fólk setti hendur sínar í heitt og kalt vatn og leiddi rannsóknin í ljós að heitt vatn olli meiri skaða. Hafði það þau áhrif að húðin missti meira af vatni, yfirhúðin varð viðkvæmari og sást meiri roði á húðinni. Þá jókst einnig pH-gildi húðarinnar, sem veldur skaða á yfirhúðinni og eykur vökvatap.

Segir Dr. Barbosa að heitt vatn geti því valdið dauflegri húð og öskulegri (e. ashy).

Veldur þurru hári

Líkt og með áhrifin á húðina telja húðsjúkdómafræðingar að heitt vatn geri hárið þurrt með því að fjarlægja úr því fituefni. Þeir segja þó að ekki hafi verið gerðar margar rannsóknir varðandi málið.

Þá séu kirtlarnir sem leysa úr læðingi fituefnin nánast alls staðar á húð okkar en eru sérstaklega margir á andliti okkar og í hársverði. Þannig geti fólk misst raka og verndun hárs þeirra þegar hár er skolað með mjög heitu vatni.

Er það því mat húðsjúkdómafræðingsins Dr. Jenkins að fólk breyti sturturútínu sinni er því finnst hár sitt vera þurrt og slitið.

Moðvolg sturta í 5-10 mínútur

Mælt er með því að ef einstaklingar glíma ekki við þurrt hár eða þurra húð eða þá við sjúkdóma á borð við exem þá geti þeir notið heitrar sturtu einu sinni til tvisvar sinnum í viku.

Séu einstaklingar með olíukennda húð og olíukennt hár, þá geti þeir dekrað við sig oftar.

Þá segir Dr. Brittany Craiglow að fólk eigi alltaf að miða við að fara í moðvolgar sturtur sem helst eigi einungis að standa yfir í 5-10 mínútur.

Þá skuli líka nota sápuefni án ilm- og sterkra efna og er mælt með að fólk noti sjampó aðeins þegar það nauðsynlegt er, eins og eftir þrekæfingu.

Einnig skal bera raka á húðina fljótlega eftir bað eða sturtu á meðan húðin er enn rök en þá henti smyrsli betur en krem.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka