Lögregla gekk vopnuð um borð

Finnska landamæravörsluskipið Turva á vettvangi nærri Porkkalanniemi á annan í …
Finnska landamæravörsluskipið Turva á vettvangi nærri Porkkalanniemi á annan í jólum, en í baksýn lónar olíuflutningaskipið Eagle S sem er hluti af skuggaflota Rússa svokölluðum. AFP/Finnska landamæraeftirlitið

Finnskir lögreglumenn voru með vopnum er þeir fóru ásamt strandgæslu landsins um borð í olíuflutningaskipið Eagle S hvers áhöfn er grunuð um að rjúfa sex sæstrengi í Finnska flóa um hátíðirnar, straumkaplana Estlink 1 og 2 milli Finnlands og Eistlands ásamt fjórum ljósleiðaraköplum.

Reiknaði lögregla með mótþróa áhafnarinnar að sögn finnska dagblaðsins Helsingin Sanomat og fluttu tvær þyrlur lögreglu, strandgæslu og landamæraverði til skipsins sem að skipun strandgæslu hafði dregið inn akkerisfesti og ekkert akkeri þá reynst á enda hennar og talið að því hafi verið slakað alla leið niður á botn á meðan skipið sigldi yfir strengina sem akkerið reif þá umsvifalaust í sundur.

Hægði á sér um leið og rafmagn fór af

Veitti áhöfnin þó enga mótspyrnu, en Eagle S, sem siglir undir fána Cook-eyja í Kyrrahafi, tilheyrir í raun hinum svokallaða „skuggaflota“ Rússa sem, eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag í frétt af skemmdarverkunum, eru mikið til gömul olíuskip sem finnast hvergi á formlegum pappírum og hafa mjög óljóst eignarhald, en talið er að floti þessi telji um 1.400 skip.

Á skipaumferðarvefnum Marine Traffic mátti glöggt sjá Eagle S hægja ferðina skyndilega á sama tíma og rafmagn fór af á þeim svæðum sem Estlink-strengirnir þjóna.

Að sögn Jukka Rappe aðstoðarsaksóknara, sem ræddi við Helsingin Sanomat, íhuguðu ákæruvald og lögregla að rannsaka skemmdirnar á köplunum sem hryðjuverk en féllu frá því og eru þær nú rannsakaðar sem meiri háttar skemmdarverk.

Helsingin Sanomat (á finnsku)

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka