Síbrotamaður flýr í fimmta skiptið

Síbrotamaðurinn sást á upptöku öryggismyndavélar Hustad-fangelsisins í Mæri og Raumsdal …
Síbrotamaðurinn sást á upptöku öryggismyndavélar Hustad-fangelsisins í Mæri og Raumsdal á aðfangadagsmorgun og var þá á sínum fimmta flótta úr haldi, ýmist úr fangageymslum lögreglu, réttarsölum eða fangelsi. Skjáskot/Lögreglan/Upptaka öryggismyndavélar

Kunnur síbrotamaður af marokkósku bergi brotinn, sem hlotið hefur alls níu refsidóma í Noregi fyrir 150 þjófnaðarbrot, er nú enn flúinn úr fangelsi, ekki í fyrsta skipti því flóttarnir eru orðnir fimm í allt – þar af tveir með þeim hætti að manninum tókst einfaldlega að forða sér á hlaupum úr réttarsal þar sem gæsluvarðhaldsþinghald yfir honum stóð yfir.

Það var á aðfangadagsmorgun klukkan stundarfjórðung yfir sex að morgni, að norskum tíma, sem þjófurinn margdæmdi braust út úr Hustad-fangelsinu utan við Molde í Mæri og Raumsdal.

Ekki er ljóst hvernig hinn brotlegi komst út úr rammgerðri fangelsisbyggingunni en á upptökum eftirlitsmyndavéla mátti sjá hvar hann hljóp á brott klæddur rauðum æfingabuxum og dökkum jakka, eftir því sem Sindre Molnes lögregluvarðstjóri greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá.

Eftirlýstur alþjóðlega

Ekki er lengra síðan í nóvember að sá fingralangi hlaut dóm fyrir 25 auðgunarbrot og hnífaburð. Þeirri niðurstöðu héraðsdóms áfrýjaði maðurinn og hefur síðan sætt gæsluvarðhaldi í Hustad, en því lauk, alltént í bili, við flótta mannsins á aðfangadagsmorgun.

Lögregla segir almenningi engin hætta stafa af hinum margreynda þjófi en hefur gefið út alþjóðlega eftirlýsingu á hendur honum auk þess sem laganna verðir geta þess í yfirlýsingu á samfélagsmiðlasvæðum sínum að strokufanginn sé þekktur að því hve auðvelt honum reynist að fara huldu höfði um lengri tíma.

Lét Héraðsdómur Mæris og Raumsdals þess sérstaklega getið í síðasta gæsluvarðhaldsúrskurði sínum að fanginn hefði einnig náð að flýja úr vistun í fangageymslum lögreglu.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert