Zoran Milanovic, sitjandi forseti Króatíu, hlaut ekki hreinan meirihluta í forsetakosningunum þar í landi eins og útgönguspár spáðu fyrir um og verður því farið í aðra umferð forsetakosninganna 12. janúar.
Hlaut Milanovic 49,11% atkvæða og munaði því sáralitlu að hann hlyti hreinan meirihluta.
Hans helsti andstæðingur í kosningabaráttunni, Dragan Primorac, hlaut 19,37% atkvæða.
Milanovic er vinstrimaður og var áður formaður Jafnaðarmannaflokks Króatíu, sem er í stjórnarandstöðu á þingi Króatíu.
Primorac er hins vegar studdur af íhaldsflokknum HDZ sem er stærsti flokkur landsins og leiðir ríkisstjórn þess.
Á eftir þeim komu miðju-hægri þingmaðurinn Marija Selak Raspudic og vinstri þingmaðurinn Ivana Kekin, en þær hlutu um 9% atkvæða hvor.