Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir hug sinn vera hjá fórnarlömbum hörmulega flugslyssins sem varð í Muan í Suður-Kóreu í morgun.
Aðeins tveir af þeim 181 sem voru um borð lifðu af flugslysið þegar Boeing-vél Jeju Air brotlenti á flugbrautinni á alþjóðaflugvellinum í Muan með þeim afleiðingum að vélin nærri því gjöreyðilagðist. Vélin var á leið frá Taílandi.
„Það hryggir mig að heyra af mannskæða flugslysinu í Suður-Kóreu. Hugur minn er hjá fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra,“ skrifar utanríkisráðherrann á samfélagsmiðilinn X.
Rannsókn stendur yfir á tildrögum slyssins en flugmaðurinn sem stjórnaði vélinni sendi frá sér neyðarboð skömmu áður en vélin brotlenti. Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur lýst yfir sjö daga þjóðarsorg vegna slyssins.