Grunaður um að hafa banað móður sinni

Finnska lögreglan.
Finnska lögreglan. Ljósmynd/Vefur finnsku lögreglunnar

74 ára gömul kona og 45 ára sonur hennar fundust látin eftir eldsvoða í heimahúsi í Helsinki í Finnlandi á laugardag. Sonurinn er grunaður um að hafa ráðist á móður sína og svo kveikt í húsinu.

Finnska ríkisútvarpið YLE greinir frá.

„Við erum að rannsaka hvort að móðirin hafi látist áður en eldurinn hófst eða hvort þau bæði hafi látist í brunanum,“ sagði Kari Martikainen, sem fer fyrir rannsókninni fyrir hönd lögreglunnar.

Húsið alelda þegar lögreglan bar að garði

Lögreglan telur að móðirin hafi orðið fyrir miklum barsmíðum áður en eldurinn kviknaði og því óljóst hvort hún hafi verið látin fyrir eldsvoðann.

Frá Helsinki. Lögreglan grunar soninn um morð.
Frá Helsinki. Lögreglan grunar soninn um morð. AFP/Heikki Saukkomaa

Þegar lögreglunni barst útkallið á laugardagskvöld var það vegna gruns um ofbeldi á heimilinu, en þegar lögreglan mætti á vettvang var húsið alelda.

Lögreglan grunar að sonurinn hafi beitt móður sína ofbeldi og svo kveikt í húsinu, en sonurinn lést í eldsvoðanum.

Málið er rannsakað sem manndráp og sonurinn er talinn hafa verið einn að verki. Móðirin var með skráð lögheimili í húsinu en ekki sonurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert