Íslenskur læknir: „Hrikalegt að þetta sé hægt“

AFP/Ralf Hirschberger

„Hjá mér var klippt á jól­in þegar ég sá allt þetta særða fólk, allt sem var að ger­ast. Ég sagði við sjálf­an mig að ég yrði að fresta þessu og hugsa um eitt­hvað annað.“

Þetta seg­ir Henn­ing Busk, hjarta- og brjóst­hols­skurðlækn­ir á há­skóla­sjúkra­hús­inu í Mag­deburg í Þýskalandi. Hann er einn þeirra sem sinntu særðum eft­ir árás­ina á jóla­markaðinn 20. des­em­ber síðastliðinn. Fimm lét­ust í árás­inni og yfir 200 særðust.

„Hrika­legt að þetta sé hægt“

Bíl var ekið inn á eina aðal­göngu­göt­una í Mag­deburg þar sem vin­sæll og fjöl­sótt­ur jóla­markaður er sett­ur upp á ári hverju. Henn­ing seg­ir marga eiga erfitt með að meðtaka að það geti yfir höfuð gerst að ein­hver aki vilj­andi á fólk á þessu svæði. Fólk sé skelf­ingu lostið.

„Það sem kem­ur líka mjög illa við fólk, er hvað þetta eru marg­ir. Þetta er bara ökumaður á ein­um bíl sem tekst að meiða 235 manns. Það er hrika­legt að þetta sé hægt með ein­um bíl. Hann er ekki að keyra á hraðbraut. Það er svo erfitt að skilja hvað svona maður er að hugsa,“ seg­ir Henn­ing, og bæt­ir við:

„Svo er auðvitað talað um að hann sé lækn­ir og ég er sjálf­ur lækn­ir og get ekki skilið svona hugsana­gang. Lækn­ar hjálpa fólki, þeir myrða það ekki.“

AFP/​Ralf Hirsch­ber­ger

Varað hafði verið við árás­ar­mann­in­um

Árás­armaður­inn heit­ir Taleb Jawad al Abdulmoh­sen og kem­ur frá Sádí Ar­ab­íu. 

Hann kom fyrst til Þýska­lands árið 2006 og stundaði þá sér­nám í lækna­námi og starfaði sem lækn­ir eft­ir það. Greint hef­ur verið frá því að Sádi-Ar­ab­ar hafi ít­rekað varað þýsk yf­ir­völd við því að maður­inn gæti verið hættu­leg­ur. 

Abdulmoh­sen hef­ur á net­inu tjáð hat­ur sitt á íslam, reiði í garð þýskra yf­ir­valda og stuðning við öfga­skoðanir á „íslam­væðingu“ Evr­ópu. Hann sit­ur nú í gæslu­v­arðhaldi og hef­ur sagt að ástæða árás­ar­inn­ar sé óánægja með hvernig farið er með sádi­ar­ab­íska flótta­menn í Þýskalandi.

Yfir 200 mættu í út­kall á skömm­um tíma

Henn­ing, sem hef­ur búið og starfað í Þýskalandi í 30 ár, var akkúrat að ljúka stórri aðgerð þegar árás­in átti sér stað. Hann var fyr­ir al­gjör­lega til­vilj­un enn á spít­al­an­um þegar til­kynn­ing barst um kvöld­mat­ar­leytið að stór­slys hefði orðið og að fjöl­marg­ir væru særðir. Í fyrstu ríkti þó mik­il óvissa um hve marg­ir kæmu.

Hann hafði unnið all­an dag­inn en hélt áfram og var á vakt­inni til klukk­an þrjú um nótt­ina. Fleiri voru í þeirri stöðu. „Það reyndu all­ir að vera sem lengst og gera sem mest. Hjálpa öllu þessu fólki. Við viss­um ekk­ert hvað kæmi. Marg­ir voru líka með inn­vort­is blæðing­ar,“ seg­ir Henn­ing.

„Það kom kall í gegn­um kall­kerfið að við ætt­um að flýta okk­ur að rýma sal­inn því það var margt sært fólk á leiðinni.“

Í kjöl­farið voru lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræðing­ar og annað starfs­fólk kallað út, því marg­ir voru þegar farn­ir heim, og seg­ir Henn­ing fólk hafa brugðist ótrú­lega skjótt við.

„Í þess­um sal þar sem við mætt­umst öll voru yfir 200 manns sem komu í út­kalli. Það var magnað að sjá hvað fólkið var fljótt að koma.“

AFP/​Ralf Hirsch­ber­ger

Fals­frétt­ir töfðu flutn­ing særðra

Komið var með 72 hinna særðu á há­skóla­sjúkra­húsið og þar af voru 27 illa særðir, að sögn Henn­ings. Bregðast þurfti skjótt við og hafa hröð hand­tök. Marg­ir þurftu á blóðgjöf að halda og aldrei hafa fleiri mætt í blóðbank­ann, eins og dag­inn eft­ir árás­ina.

„Þetta var líka svo erfitt fyr­ir marga því það voru svo mörg börn sem særðust. Það voru 25 eða 26 sem lágu þarna hlið við hlið þegar þau komu og það þurfti að dreifa þeim. Það var mikið grátið og marg­ir for­eldr­ar. Þetta er allt öðru­vísi en þegar ástandið er venju­legt.“

Henn­ing seg­ir að í fyrstu hafi marg­ar fals­frétt­ir borist frá slysstað. Meðal ann­ars var talað um skotárás í húsi í ná­grenn­inu og sprengju við bíl­inn, sem gerði það að verk­um að taf­ir urðu á flutn­ingi særðra á sjúkra­hús.

„Fyr­ir okk­ur var þetta mjög skrýtið, særða fólkið kom ekki strax á spít­al­ana. Það voru all­ir til­bún­ir en það kom eng­inn. Það var vegna þess að það þurfti að leita að sprengju og fleira. Svo komu bíl­arn­ir einn á fæt­ur öðrum og það gekk mjög hratt fyr­ir sig að meta hverj­ir þurftu að fara í aðgerð, sneiðmynda­töku og annað.“

Það hafi verið magnað að upp­lifa hve vel all­ir unnu sam­an í þess­um krefj­andi aðstæðum.

„Við höfðum aldrei gert æf­ingu með hvað maður ger­ir í svona stóru slysi. En þetta tókst von­um fram­ar, ég get ekki sagt annað. Ég var mjög stolt­ur að sjá hvernig all­ir gerðu það sem þeir áttu að gera. Við höfðum nógu mörg teymi til að leysa þau vanda­mál sem komu upp.“

Henn­ing seg­ir þá sem komu á spít­al­ann hafa verið í mjög mis­jöfnu ástandi, en þangað hafi einnig komið fólk sem ekki var mikið slasað en var í al­gjöru áfalli. 

„Sumt fólk var næst­um meðvit­und­ar­laust. Það skipti máli að hér var hægt að fá góða áfalla­hjálp.“ 

Spít­al­inn ekki starf­hæf­ur án út­lend­inga

Mik­il reiði og sorg rík­ir nú í Mag­deburg að sögn Henn­ings, og andúð gagn­vart út­lend­ing­um hef­ur blossað upp sem aldrei fyrr. Fólk láti hat­urs­full um­mæli falla í garð út­lend­inga á sam­fé­lags­miðlum, og marg­ir tali um að senda þá alla heim.

„En spít­al­inn okk­ar myndi til dæm­is ekki virka ef við hefðum ekki alla út­lend­ing­ana sem eru hér. Á minni deild, hjarta- og brjóst­hols­skurðdeild­inni, þá eru 25 lækn­ar og ætli 7 af þeim séu ekki Þjóðverj­ar. All­ir aðrir eru út­lend­ing­ar, meðal ann­ars frá Sýr­landi og Egyptalandi. Allt fólk sem við þurf­um á að halda. Spít­al­inn virk­ar ekki nema við höf­um þetta fólk.“

Tel­ur Henn­ing að andúð gagn­vart út­lend­ing­um muni lita kom­andi kosn­inga­bar­áttu og að þjóðern­is­flokk­ur­inn AfD muni nýta sér það óspart.

Mikli reiði og sorg ríkir í Magdeburg að sögn Hennings.
Mikli reiði og sorg rík­ir í Mag­deburg að sögn Henn­ings. AFP/​Ralf Hirsch­ber­ger

Þó nokk­ur tími þar til lífið kemst í eðli­legt horf

Hann seg­ir al­mennt þungt yfir borg­inni og að marg­ir vilji ekki fara niður í bæ. Fólk kvíði því jafn­vel að þurfa þess. Þá sé viðbúið að það verði erfitt fyr­ir marga að sækja markaðinn á næsta ári. Það geti vakið upp erfiðar til­finn­ing­ar.

Á nokkr­um stöðum við göngu­göt­una hef­ur fólk komið með blóm og bangsa og seg­ir Henn­ing kveikt á kert­um um all­an bæ. Hann tel­ur að þó nokk­ur tími muni líða þar til lífið kemst aft­ur í eðli­legt horf í Mag­deburg.

Henn­ing seg­ist hafa verið hepp­inn að kom­ast út úr bæn­um rétt fyr­ir helgi, en hann fór og heim­sótti börn sín og barna­börn til Leipzig þar sem hann gat núllstillt sig. „Það var gott að kom­ast frá Mag­deburg og gef­andi að heim­sækja börn­in. Sem afi get­ur þú ekki verið í fýlu inn­an um lít­il börn,“ seg­ir hann létt­ari í bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert