Sættir í stóra gallabuxnamálinu

Magnús Carlsen undirbýr sig í gallabuxum.
Magnús Carlsen undirbýr sig í gallabuxum. AFP

Skákmaðurinn Magnús Carlsen mun snúa aftur til keppni á heimsmeistaramótinu í atskák eftir að forsvarsmenn keppninnar ákváðu að slaka á kröfum um klæðaburð. Carslen hafði verið vikið úr keppni eftir að hann mætti í gallabuxum til leiks en samkvæmt reglum um klæðaburð keppenda eiga slík efnisklæði ekki heima á skákmótum.

„Eigið ykkur“

Mikið uppnám varð á öðrum keppnisdegi mótsins. Carlsen átti enn sigurvon þó að hann hafi teflt verr en við var búist. Þá fór af stað atburðarás sem setti mótið í allt annað samhengi en til var ætlast. Þar sem stórstjarna skákarinnar og margfaldur heimsmeistari sinnti ekki tilmælum í miðju móti um að skipta út gallabuxum sínum fyrir brækur úr öðru efni var hann ekki paraður í 9. umferð mótsins og fékk því bókað núll.

Vísað var til þess að í keppnisreglum mætti finna ákvæði m.a. um klæðaburð og skófatnað. Hann gekk út og tilkynnti að hann væri hættur keppni. Var honum mikið niðri fyrir og vandaði Alþjóðaskáksambandinu ekki kveðjurnar. Greip hann meðal annars til orðasambands sem vel er þekkt á enskri tungu og mætti þýða sem „eigið ykkur“ svo það sé pent orðað.

Mun leika í gallabuxum

Sá hluti mótsins sem nefnist atskák er lokið. Þar hafði sigur 18 ára Rússi að nafni, Volodar Murzin. Í dag hófst hins vegar hraðskák og mun Magnús mæta þar til leiks. „Ég mun pottþétt mæta í gallabuxum,“ sagði Magnús þegar hann var spurður út í mót dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert