Forsætisráðherra Slóvakíu, Róbert Fico, hefur hótað að skera niður fjárhagsaðstoð við úkraínska flóttamenn, vegna ákvörðunar Úkraínu um að loka fyrir gasflutninga Rússa í gegnum landið.
Úkraína batt enda á áratuga langt fyrirkomulag um gasflutninga Rússa til Evrópu á nýársdag. Flutningarnir hafa farið í gegnum Úkraínu síðan árið 1991 og aflað tekna fyrir bæði Rússland og Úkraínu.
Ákvörðunin telst vafasöm fyrir stöðu Úkraínu en fjöldi Evrópulanda reiðir sig á gasbirgðirnar. Fico, sem heimsótti Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Moskvu óvænt í síðasta mánuði hefur kallað ákvörðunina skemmdarverk.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti ásakaði Fico í síðasta mánuði um að aðstoða Pútín við að fjármagna stríðið, veikja stöðu Úkraínu og draga Slóvakíu inn í grimmdarverk Pútíns.
Fico hefur fullyrt að Slóvakía muni ekki sjálf þjást af gasskorti en horfi fram á að tapa milljónum evra í flutningsgjöld frá öðrum Evrópuþjóðum, þar sem landið er aðalinnkomustaður gasbirgðanna.
Samkvæmt tölum Alþjóðlegu flóttamannastofnunarinnar (UNHCR) eru um 130 þúsund úkraínskir flóttamenn í Slóvakíu og hefur forsætisráðherrann hótað að minnka stuðning við þá snarlega endurskoði úkraínsk stjórnvöld ekki ákvörðun sína.
Kvaðst hann sömuleiðis reiðubúinn til að skoða hindrun raforkuveitinga til Úkraínu.
Pólland hefur aftur á móti fagnað ákvörðun Úkraínu og hefur heitið því að hlaupa undir bagga ákveði Slóvakía að stöðva raforkuveitingarnar, en raforkuinnviðir Úkraínu eru iðulega skotmörk árása Rússa.
Meira en 40% af gasflutningi á milli landa í Evrópusambandinu kom frá Rússlandi áður en innrásin í Úkraínu hófst en hefur minnkað til muna síðan og var aðeins 10% árið 2023.
Þó eru enn sum aðildarríki sambandsins, lönd í Austur-Evrópu, sem eru mjög háð rússneskum innflutningi en til að mynda þjáist Moldóva, sem er ekki aðildarland í ESB, nú þegar af gasskorti.
Rússar geta þó enn sent gas til Ungverjalands, Tyrklands og Serbíu í gegnum TurkStream-leiðsluna yfir Svartahafið.