Læknir sem starfar fyrir bandaríska heilbrigðiskerfið segir að áfengi eigi að hafa miða þar sem varað er við tengslum krabbameins og áfengisneyslu.
Læknirinn, Vivek Murty, segir að tengsl áfengisneyslu og krabbameins hafi verið þekkt frá því á níunda áratugnum og að árlega megi rekja um 100 þúsund krabbameinstilfelli og um 20 þúsund andlát til krabbameins vegna áfengisneyslu í Bandaríkjunum.
„Meirihluti Bandaríkjamanna veit ekki um áhættuna sem fylgir neyslunni,“ segir Murthy.
Sem stendur eru eingöngu þungaðar konur varaðar við áfengisneyslu á umbúðum áfengis. Nýlega hafa yfirvöld í Suður-Kóreu og Írlandi samþykkt reglur sem kveða á um að merkja beri áfengisumbúðir þar sem auknum líkum á krabbameini er lýst.
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa gefið það út að dagleg neysla áfengis eigi að hámarki að vera tvær einingar hjá karlmönnum og ein eining hjá kvenfólki. Nýlegar rannsóknir hafa þó sýnt að um 17% af þeim sem halda sig innan þessara marka fá krabbamein þar sem meginorsökin er sögð neysla áfengis.