Dómur falli 10 dögum fyrir embættistöku

Donald Trump tekur við embætti 20. janúar.
Donald Trump tekur við embætti 20. janúar. AFP

10. janúar mun Juan Merchan dómari fella dóm yfir Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, í máli er varðar mútugreiðslur – tíu dögum áður en Trump sver embættiseið.

Merchan greindi frá því að Trump hefði kost á að mæta fyrir dóminn í persónu eða í gegnum fjarfundarbúnað.

Trump var sakfelldur 30. maí í 34 ákæruliðum og reyndi forsetinn ítrekað að vísa málinu frá í ljósi dóms Hæstaréttar um friðhelgi fyrrverandi forseta.

Engin fangelsisvist

Í 18 blaðsíðna skjali hafnaði Merchan þeirri beiðni. Hann greindi þó frá því að hann hallaðist að því að dæma Trump ekki til fangelsisvistar, og þar af leiðandi yrði refsingu vísað frá án skilyrða.

Þá bætti dómarinn við að ef Trump sver embættiseið mun hann njóta friðhelgi. Því væri mikilvægt að fella dóm í málinu fyrir 20. janúar.

Merchan tók fram að hann teldi saksóknara vera sammála þeirri niðurstöðu.

Engu að síður verður Trump þá fyrsti dæmdi maðurinn til þess að gegna embætti forseta.

„Svikult leikrit“

Trump er dæmdur fyrir að hafa falsað viðskiptaskjöl og mútugreiðslur til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels fyrir kosningarnar árið 2016. Hann hefði getað átt yfir höfði sér fjögurra ára fangelsisvist fyrir brotin.

Lögspekingar töldu þó að jafnvel þó að Trump hefði ekki sigrað í kosningunum þá hefði Merchan ekki dæmt hann til fangelsisvistar.

Búist er við að Trump muni leggja fram áfrýjunarbeiðni sem mun mögulega fresta dóminum enn frekar. Hann fordæmdi ákvörðun Merchan í gærkvöldi.

„Þessi ólögmæta pólitíska árás er ekkert annað en svikult leikrit,“ sagði í færslu Trumps á samfélagsmiðli hans, Truth Social.

Hann kallaði Merchan „róttækan skæruliða“ og að ákvörðun hans um að vísa málinu ekki frá væri ólögleg og stangaðist á við stjórnarskrá Bandaríkjanna, „ef hún fær að standa er hún endalok forsetaembættisins eins og við þekkjum það“.

Hinar ákærurnar

Trump var einnig ákærður í tveimur alríkismálum sem sérstakur saksóknari, Jack Smith, leiddi.

Annað málið sneri að ólögmætum tilraunum Trumps til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020 og hitt snéri að misferli með trúnaðarskjöl Hvíta hússins. Bæði málin voru felld niður vegna langvarandi stefnu dómsmálaráðuneytisins um að lögsækja ekki sitjandi forseta.

Þá var Trump einnig ákærður fyrir ólögmætar tilraunir til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020, en það mál einskorðast við Georgíuríki. Ekkert mun líklega gerast í því máli á meðan Trump situr í embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert