Hin japanska Tomiko Itooka er látin 116 ára að aldri. Hún var formlega skráð sem elsta manneskja heims áður en hún féll frá.
Þessu greindi borgarstjóri Ashiya, heimaborgar Itooka, frá. Hún lést þann 29. desember á dvalarheimili sem hún flutti á árið 2019.
Itooka fæddist 23. maí árið 1908 í Osaka, nærri Ashiya. Hún lætur eftir sig fjögur börn og fimm barnabörn.
Itooka varð formlega elsta manneskja heims í ágúst er hin spænska Maria Branyas Morera lést 117 ára gömul.
„Itooka gaf okkur hugrekki og von á sinni löngu ævi,“ var haft eftir hinum 27 ára gamla borgarstjóra Ashiya, Ryosuke Takashima, í yfirlýsingu.
„Við þökkum henni fyrir það.“
Í yfirlýsingu borgarstjórans sagði að Itooka hefði notið þess að fá sér banana og Calpis, vinsælan japanskan mjólkurdrykk, á sínum efri árum.
Um 95 þúsund manns eru 100 ára eða eldri í Japan, þar af eru 88% konur. Nærri þriðjungur þjóðarinnar er eldri en 65 ára.