Neyðarástandi lýst yfir vegna veðurs

Spáð er kaldasta janúarmánuði síðan árið 2011.
Spáð er kaldasta janúarmánuði síðan árið 2011. Ljósmynd/Colourbox

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna veðurs í nokkrum ríkjum í Bandaríkjunum vegna kulda og mikillar snjókomu. 

Ef veðurspáin gengur eftir má gera ráð fyrir kaldasta janúarmánuði frá árinu 2011 og mestu snjókomu í áratug. Þá er spáð töluverðum vindi sem gerir aðstæður enn verri, bæði hvað varðar vindkælingu og áhrif á samgöngur. En fólk er varað við ferðalögum. BBC greinir frá.

Því er spáð að stormurinn gangi til austurs frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna og nái til Mið-Atlantshafssvæðisins í kvöld.

Áfram er svo spáð leiðindaveðri á morgun, en á þriðjudag má búast við að veðrið fari að ganga niður.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Kentucky, Virginíu, Kansas, Arkansas og Missouri, en veðurviðvörun er í gangi í samtals 30 ríkjum.

Veðurfræðingar segja að þetta öfgafulla veðurfar megi rekja til kuldapolls sem borist hefur frá Norðurheimskautinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert