Rússar segjast hafa náð á sitt vald bænum Kurakhove í austurhluta Úkraínu, en hart hefur verið barist á svæðinu undanfarna mánuði.
Rússneskar hersveitir hafa „að fullu frelsað Kurakhove, stærsta íbúasvæðið í suðvestur Donbass,“ sagði varnarmálaráðuneytið á Telegram.
Um 22 þúsund manns eru með lögheimili í bænum, sem er litlu minna en fjöldi íbúa í Reykjanesbæ.
Úkraínski herinn hefur ekki staðfest fregnirnar og segir aðeins að Rússar séu að stunda hernaðaraðgerðir í þéttbýli bæjarins.
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði á mánudag að úkraínskar hersveitir hefðu breytt svæðinu í öflugt víggirt svæði með neðanjarðarfjarskipti.
Með landvinningnum yrði hægt að ná öðrum svæðum í Donetsk-héraði á hraðvirkari hátt.
Úkraínuher hóf aðra gagnárás í Kúrsk-héraðinu í Rússlandi gær en í ágúst á síðasta ári gerði herinn einnig gagnárás á svæðinu.
Bæði Rússland og Úkraína reyna nú að styrkja stöðu sína áður en Donald Trump tekur við embætti Bandaríkjaforseta 20. janúar.
Hann hefur gefið það út að hann vilji fá þjóðirnar að samningaborðinu til þess að binda enda á stríðið.