Trudeau segir af sér

Justin Trudeau tilkynnti afsögnina á blaðamannafundi.
Justin Trudeau tilkynnti afsögnina á blaðamannafundi. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir af sér sem formaður Frjálslynda flokksins og sem forsætisráðherra.

Hann tilkynnti þetta á blaðamannafundi rétt í þessu.

Hann mun stíga til hliðar eftir að flokkurinn hefur valið sér nýjan leiðtoga.

Spenntur að fylgjast með næstu mánuðum

Hann sagði kanadíska þingið hafa verið í lamasessi síðustu mánuði. Í morgun óskaði hann eftir því að hlé yrði gert á þinginu og að það kæmi aftur saman 24. mars.

Hann sagðist spenntur fyrir því að fylgjast með atburðarásinni fram undan, þar sem nýr leiðtogi verður valinn.

Í svari við spurningu blaðamanns sagði hann sína einu eftirsjá í embætti vera að hafa ekki ráðist í breytingar á kosningalögum í forsætisráðherratíð sinni. Breytingar sem hefðu að hans sögn dregið úr skautun í samfélaginu.

Vill ekki greina frá hvað fór þeirra á milli

Fjármálaráðherra Trudeau, Chrystia Freeland, sagði af sér í desember. Trudeau kvaðst vonsvikinn með ákvörðun hennar, hann hefði vonast til að hún myndi halda áfram. Þetta hefði þó verið hennar að ákveða.

Þá sagðist hann ekki vilja deila því hvað fór þeirra á milli þegar hún sagði af sér.

Afsögn Freeland skapaði enn meiri pólitískan þrýsting á Trudeau að segja af sér.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert