Fundust látin í lendingarbúnaðarrými þotu

Farþegaþota JetBlue á LAX-flugvellinum í Los Angeles. Mynd úr safni.
Farþegaþota JetBlue á LAX-flugvellinum í Los Angeles. Mynd úr safni. AFP

Lögreglan í Flórída rannsakar nú líkfund í rými fyrir lendingarbúnað þotu flugfélagsins JetBlue.

Vélin var nýlent á alþjóðaflugvellinum Fort Lauderdale-Hollywood í Flórída þegar starfsmenn sem voru að sinna hefðbundnu eftirliti fundu tvö lík í rýminu.

„Það er til rannsóknar hvernig einstaklingarnir komust inn í flugvélina,“ segir í yfirlýsingu JetBlue.

„Þetta er hræðilegt atvik og við erum staðráðin í því að vinna náið með yfirvöldum til að aðstoða við að skilja hvernig þetta gat gerst.“

CBS greinir frá.

Byrjaði daginn í Jamaíku

Flugvélin lagði af stað frá JFK-flugvellinum í New York klukkan 20.20 að staðartíma í gærkvöldi og lenti klukkan 23.03 í Flórída.

Vélin hafði flogið í 38 þúsund feta hæð. Flugið varði í tvo tíma og 43 mínútur, samkvæmt upplýsingum flightradar24.

Þotan hafði þó ferðast víðar þennan dag. Í gærmorgun var hún í Kingston, Jamaíku. Þaðan var vélinni flogið til New York, síðan til Salt Lake-borgar í Utah og svo aftur til New York áður en hún endaði í Flórída.

Málið á borði lögreglu

Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu. Mun réttarlæknir kryfja líkin og komast að dánarorsök.

Svipað atvik átti sér stað yfir hátíðarnar á Havaí þar sem lík fannst í rými lendingarbúnaðar þotu flugfélagsins United Airlines. Vélinni hafði verið flogið frá Chicago til Maui. Ekki er vitað hvernig viðkomandi komst í vélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert