Í dag eru tíu ár liðin frá því að íslamskir hryðjuverkamenn gerðu árás á skopblaðið Charlie Hebdo og myrtu 12 manns. Árásin vakti heimsathygli og varð slagorðið „Je suis Charlie“ (í. ég er Charlie) þekkt sem baráttukall gegn hryðjuverkum íslamskra öfgamanna.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, munu í dag leiða minningarathöfn sem verður haldin á gömlu skrifstofu Charlie Hebdo.
Árásarmennirnir voru Cherif Kouachi og bróðir hans, Said Kouachi.
Í myndskeiði sem birtist eftir árásina má sjá mennina með andlitsgrímur fara úr flóttabíl eftir árásina á Hebdo. Þeir hlaða vopn sín og annar kallar:
„Við höfum hefnt spámannsins Múhameðs, við höfum drepið Charlie Hebdo.“
Tólf létust í árásunum, þar af átta starfsmenn Charlie Hebdo, en aðskilin en tengd gíslataka þriðja byssumannsins í gyðingaverslun í austurhluta Parísar 9. janúar 2015 kostaði fjóra til viðbótar lífið.
Blóðbaðið markaði upphaf tímabils í Frakklandi þar sem öfgamenn innblásnir af Al-Kaída og Ríki íslams gerðu ítrekað árásir sem settu landið á hliðina og juku trúarlega spennu.
Þýskaland „deilir sársauka franskra vina sinna,“ sagði Olaf Scholz Þýskalandskanslari í tilkynningu í dag.
„Ef þú vilt hlæja, þá þýðir það að þú vilt lifa,“ segir í ritstjórnargrein eftir Laurent Sourisseau, sem lifði af fjöldamorðin 2015.