Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, kveðst ekki útiloka að beita hernum til að ná Panamaskurðinum og Grænlandi á sitt vald.
Segir hann að yfirráð Bandaríkjanna á hvoru tveggja séu nauðsynleg fyrir öryggi þjóðarinnar.
Þetta kom fram í máli Trumps er blaðamenn spurðu hann nú fyrir stundu, hvort hann útilokaði beitingu hersins í þessu tilliti.
„Ég ætla ekki að skuldbinda mig til þess,“ svaraði Trump þegar hann var spurður.
„Það gæti verið að þú þurfir að gera eitthvað. Panamaskurðurinn er nauðsynlegur fyrir landið okkar,“ sagði hann.
„Við þurfum Grænland í þjóðaröryggisskyni,“ bætti hann við.
Grænland er sem kunnugt er sjálfsstjórnarsvæði sem heyrir undir Danmörku, sem í fleiri áratugi hefur verið bandamaður Bandaríkjanna og var eitt stofnríkja Atlantshafsbandalagsins, ásamt Íslandi, Bandaríkjunum og fleiri ríkjum.
Elsti sonur Trumps, Donald Trump yngri, flaug til Grænlands í dag þegar minna en tvær vikur eru þar til forsetinn fyrrverandi sest aftur á valdastól.
Trump hefur einnig að undanförnu ítrekað gefið í skyn að Kanada ætti að sameinast Bandaríkjunum. Hann hefur þó sagst ekki myndu beita hernaðarvaldi til þess, heldur treysta á efnahagslegan styrk.