Yfir 700 starfsmenn höfða mál gegn McDonald's

AFP

Ríflega 700 ungir starfsmenn hafa höfðað skaðabótamál á hendur bandarísku skyndibitakeðjunni McDonald's í Bretlandi í kjölfar þess að hulunni var svipt af útbreiddum ásökunum um áreitni gagnvart ungu starfsfólki í fjölmiðlum árið 2023.

Frá þessu greinir breska lögmannsstofan Leigh Day, en hún höfðar málið fyrir hönd núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem voru yngri en 20 ára þegar þeir voru við störf hjá McDonald's.

Málið tengist yfir 450 stöðum

„Skjólstæðingar okkar hafa lýst því hvernig þeir hafa mátt þola mismunun, fordóma gagnvart samkynhneigðum, rasisma, fordóma gagnvart fötluðum og áreitni,“ segir Leigh Day í tilkynningu sem hefur verið send á fjölmiðla. Þar kemur fram að málið tengist fleiri en 450 stöðum.

Þetta gerist í kjölfar rannsóknar breska ríkisútvarpsins sem greindi frá málunum í júlí árið 2023.

McDonald's er einn stærsti atvinnurekandi Bretlands, en um 170.000 starfa hjá fyrirtækinu. Margir starfsmenn eru ungir að aldri, þar á meðal táningar. 

Talsmaður McDonald's segir hvers kyns áreitni og óviðeigandi hegðun sé óviðunandi. Slík mál verði rannsökuð strax og gripið til viðeigandi aðgerða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert