Stórbruni í Ósló

Þessa ljósmynd sendi íbúi, búsettur í töluverðri fjarlægð frá hinu …
Þessa ljósmynd sendi íbúi, búsettur í töluverðri fjarlægð frá hinu brennandi húsi við Alexander Kiellands plass, norska ríkisútvarpinu NRK í nótt og má af henni ráða hve langt að koma mátti auga á eldhafið. Ljósmynd/Íbúi í Ósló

Hundrað og sextíu íbúar í og umhverfis fjölbýlishús við Alexander Kiellands plass í norsku höfuðborginni Ósló þurftu að rýma íbúðir sínar í nótt vegna stórbruna í húsinu sem slökkvilið er enn önnum kafið við að slökkva og verður fram eftir degi eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá.

Í fyrstu, um tvöleytið að norskum tíma, var tilkynnt um eld á fyrstu hæð hússins, sem byggt var árið 1890, en ekki leið á löngu uns hann hafði breiðst upp um fleiri hæðir, að lokum allar fjórar hæðir hússins, og var íbúum aðlægra húsa gert að rýma af ótta við að eldurinn bærist þangað.

Óttast að byggingin hryndi

Um fjögurleytið hafði slökkviliði tekist að tryggja öryggi nágrannahúsanna og um klukkustundu síðar var einhverjum íbúum þeirra leyft að snúa til síns heima – þó ekki öllum.

„Eldurinn læsti sig að lokum í þakið og allt húsið er ónýtt,“ segir Knut Halvorsen, stjórnandi aðgerða slökkviliðis á staðnum, við NTB-fréttastofuna. Fóru reykkafarar inn í brennandi bygginguna til að ganga úr skugga um að allir íbúar hússins væru örugglega komnir út og snemma í morgun tóku slökkviliðsmenn að rífa hluta hússins niður til að auðvelda aðgengi að þeim. Var á tímabili óttast að byggingin hryndi fyrirvaralaust og slökkvistarfið því að mestu framkvæmt án þess að slökkviliðsmenn færu inn í hana.

Var íbúunum, sem yfirgefa þurftu heimili sín, veitt skjól í strætisvögnum sem komu á vettvang en stór hluti hússins, sem eldurinn kom upp í, er atvinnuhúsnæði.

Lögregla hefur hafið rannsókn á upptökum brunans auk þess sem hún ræðir við fólk sem hún telur að veitt geti nothæfar upplýsingar.

NRK

VG

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert