Biden telur að hann hefði getað unnið Trump

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti lifir í þeirri trú að hann hefði getað unnið Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, í forsetakosningunum sem voru haldnar í nóvember.

Þetta kemur fram í viðtali við USA Today þar sem hann tók þó fram að hann væri ekki viss um það hvort að hann hefði úthald í að þjóna í fjögur ár í viðbót.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Trump var með afgerandi forskot

Eins og frægt er orðið þá dró Joe Biden framboð sitt til baka 21. júlí í kjölfar kappræðna á móti Trump sem áttu sér stað tæplega mánuði á undan.

Biden bar sig mjög illa í kappræðunum og demókratar settu mikinn þrýsting á Biden að draga framboðið til baka.

Samkvæmt könnunum þá var Trump kominn með afgerandi forskot á Biden og töldu flestir álitsgjafar mjög hæpið að Biden gæti unnið Trump. Samkvæmt RealClearPolitics þá var Trump með 4,4 prósentustiga forskot á Biden að meðaltali í sveifluríkjunum daginn sem Biden dró framboðið til baka. 

Leitaðist ekki eftir því að vera 86 ára gamall forseti

Í samtali við USA Today sagði Biden að „miðað við kannanir“ að þá trúi hann því að hann hefði getað unnið, en viðurkenndi að aldur hans hefði haft áhrif á hann í embætti.

„Þegar Trump var að bjóða sig fram aftur til endurkjörs taldi ég mig í raun eiga mesta möguleika á að sigra hann. En ég var heldur ekki að leitast eftir því að verða forseti þegar ég var orðinn 85 ára, 86 ára,“ sagði Biden. „En ég veit það ekki. Hver í fjandanum veit það?“

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, tók við keflinu af Biden sem forsetaframbjóðandi demókrata og Trump vann nokkuð afgerandi sigur á móti henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert