Kom úr felum og var handtekin

Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar.
Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar. AFP

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, Maria Corina Machado, var handtekin í höfuðborginni Caracas eftir margra mánaða felur, en var látin laus aftur skömmu síðar.

Machado var handtekin á mótmælum gegn forseta landsins, Nicolas Maduro, en ekki hafði sést til hennar í marga mánuði í kjöl­far for­seta­kosn­ing­anna í land­inu sem Maduro seg­ist hafa unnið. Til stendur að vígja hann í embættið í þriðja sinn á morgun.

Í tísti á X sögðu stuðningsmenn Machado átta lögreglumenn hafa skotið á mótorhjól sem hún var farþegi á og flutt hana á brott með valdi en hún hafi síðar verið látin laus úr haldi eftir að hafa verið þvinguð til þess að „taka upp nokkur myndskeið“.

Sagði í tístinu að Machado myndi ávarpa þjóðina síðar í dag um atburði dagsins.

„Ég er hér“

Machado hafði tilkynnt fyrirfram um komu sína úr á samfélagsmiðlinum X með orðunum „Ég er hér,“ og uppskar mikinn fögnuð er hún birtist á mótmælunum í dag. 

Flutti hún þar mikla eldræðu fyrir þúsundir mótmælenda og sagði íbúa Venesúela ekki hrædda við Maduro.

Spurð hvort hún óttaðist handtöku í viðtali svaraði Machado að hún væri meðvituð um áhættuna en að hún væri sömuleiðis meðvituð um skyldur sínar.  

„Ég þarf að vera með fólkinu okkar núna.“

Segjast hafa sigrað með 67% atkvæða

Stjórn­ar­andstaðan í land­inu hef­ur mót­mælt niðurstöðum kosninganna í fyrra harðlega og heldur því fram að þau hafi sigrað með 67% atkvæða.

Handtökuskipun var gefin út á hendur Machado og Ed­mundo Gonzá­les Urrutia, forsetaefni flokksins, eftir að þau drógu sigur Maduro í efa, og fóru þau bæði í felur í kjölfarið og hefur sá síðarnefndi flúið land.

Lands­kjör­stjórn í Venesúela, sem ein­ung­is er skipuð sam­flokks­mönn­um Maduros, hef­ur gefið út að Maduro hafi hlotið 51,2% greiddra at­kvæða, en Gonzá­les 44,2% en hafa ekki getað sýnt fram á gögn því til stuðnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert