Ríkisstjórn Trumps virðist ekki átta sig á málinu

Elsti sonur verðandi forsetans heimsótti Grænland stuttlega á þriðjudag.
Elsti sonur verðandi forsetans heimsótti Grænland stuttlega á þriðjudag. AFP

„Hann er að reyna að leggja áherslu á það við Dani og Grænlendinga að norðurskautið sé öruggara undir verndarvæng Bandaríkjanna.“

Þetta segir kanadíski stjórnmálafræðingurinn Marc Lanteigne í samtali við mbl.is. Hann flutti erindi á opinni málstofu á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands í Norræna húsinu í dag, undir yfirskriftinni: Is Greenland for sale?

„Hann hefur hótað að beita efnahagslegum þvingunum og jafnvel viðskiptabanni og þá segist hann jafnvel vera tilbúinn að beita hervaldi til að greiða fyrir tilfærslu yfirráða,“ segir hann um Donald Trump verðandi forseta Bandaríkjanna, sem lýst hefur vilja til að kaupa Grænland og sagt að ef Danmörk vilji ekki selja útiloki hann ekki möguleikann á að beita hervaldi.

„Við héldum að Bandaríkin væru ofar slíkri gamaldags stórveldahegðun, en greinilega ekki. Hvaða ríkisstjórn sem mun fara í taugarnar á honum getur verið beitt efnahagslegum þvingunum,“ segir Lanteigne, sem er dósent í stjórnmálafræði við Norðurslóðaháskólann í Tromsø í Noregi og kennir meðal annars alþjóðasamskipti, samanburðarpólitík, öryggisfræði og samanburðarpólitíska hagfræði.

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, stýrði …
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, stýrði umræðum á málstofunni. Henni á hægri hönd sitja Berit Kristoffersen, dósent í stjórnmálafræði við UIT Norðurslóðaháskólann í Noregi, Javier L. Arnaut, deildarstjóri félagsvísinda og hagfræði á Norðurslóðum við Háskólann á Grænlandi og Marc Lanteigne, dósent í stjórnmálafræði við Norðurslóðaháskólann í Tromsø í Noregi. mbl.is/Árni Sæberg

Vilji verða einræðisherra

Hann bendir á að margir embættismenn í Bandaríkjunum eigi hreinlega í erfiðleikum með fylgjast með málinu og átta sig á hvaða þýðingu það hafi.

Þá bendir hann á að bæði Rússland og Kína hafi með réttu verið gagnrýnd fyrir efnahagslegar hótanir á borð við þær sem Trump viðrar nú gagnvart Grænlandi og reyndar Panama og Kanada einnig.

Er Donald Trump að stíga skref að þínu mati í átt að einræðislegum stjórnarháttum?

„Ég held að hann hafi sagt að hann vilji verða einræðisherra frá fyrsta degi í embætti. Ég held að hann trúi því sannarlega. Hann vill snúa mörgum ákvörðunum ríkisstjórnar Joe Biden og hann hefur gert öllum ljóst að hann vilji vera miðpunktur nokkurn veginn allrar ákvarðanatöku í Bandaríkjunum.“

Lanteigne segir að jafnvel þó ekkert verði úr og sögunni allri ljúki á morgun hafi Trump unnið mikið tjón á erindisrekstri yfir Atlantshafið. Menn skyldu hafa áhyggjur af því að upphlaup hans muni valda vandamálum í stefnumörkun Bandaríkjanna í framtíðinni.

Grænland ekki eign sem getur gengið kaupum og sölum

Spurður hvort Grænland sé í einhverjum veruleika til sölu segir Lanteigne, að bæði grænlensk og dönsk stjórnvöld hafi útilokað með öllu að Grænland sé eign sem geti gengið kaupum og sölum. Allar ákvarðanir um stöðu þess ættu að vera teknar af fólkinu í Grænlandi en ekki einhverjum utanaðkomandi.

„Eftir því sem ríkisstjórn Trump segir er það á ábyrgð Danmerkur að selja landið, sem er fullkomlega rangt,“ segir Lanteigne.

Samkvæmt skilmálum sjálfstjórnarlaganna frá 2009 þurfa íbúar Grænlands að taka allar ákvarðanir sem hafa að gera með fullveldismál. „Þessu áttaði ríkisstjórn Trumps sig ekki á árið 2019 og það virðist enn vera henni óljóst nú.“

Landlæg óánægja með Dani

Lanteigne þekkir vel til á Grænlandi. Hann segir að það sé landlæg óánægja í landinu gagnvart Danmörku og að stormurinn í kringum þetta mál verði vatn á myllu sjálfstæðissinna í Grænlandi.

Hann undirstrikar þó að meðal íbúa séu mjög skiptar skoðanir um tímalínu sjálfstæðis frá Danmörku. 

„Eiga það að vera fimm ár, 20 ár eða jafnvel 50 ár?“

Þó margir vilji sjálfstæði frá Danmörku einn daginn sér hann ekki marga einfaldlega vilja flytja yfirráð yfir landinu frá Danmörku til Bandaríkjanna. Flestir vilji sjá Grænlendinga verða sjálfstæða þjóð í samstarfi við margar aðrar, þar á meðal Bandaríkin en einnig Evrópuþjóðir og jafnvel þjóðir í Asíu.

Að Grænland verði þjóð meðal þjóða.

Ræðum um Suður-Kaliforníu

„Ef Trump þrífst á einhverju einu þá er það athygli. Mér finnst mjög truflandi að þetta mál leiði augu okkar ekki aðeins frá raunverulegum öryggis- og pólitískum vandamálum á svæðinu og utan þess,“ segir Lanteigne.

„Heldur ættum við fremur að vera að ræða öryggi fólks og til dæmis loftslagsbreytingar eða þá staðreynd að stór hluti Suður-Kaliforníu er að brenna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert