Karen Bass, borgarstjóri Los Angeles, var stödd í Gana í Afríku þegar gróðureldarnir kviknuðu og hefur hún verið þar síðustu daga.
Bass var spurð að því af blaðamanni í gær þegar hún kom aftur til Bandaríkjanna, hvort hún skuldaði íbúum borgarinnar afsökunarbeiðni fyrir að hafa verið fjarverandi á meðan heimili þeirra brunnu til kaldra kola.
Þá var hún einnig spurð að því hvort hún sæi eftir að hafa skorið niður fjárframlög til slökkviliðs borgarinnar um milljónir dollara, og hvort hún íhugaði stöðu sína. Borgarstjórinn svaraði hins vegar engu og gekk framhjá blaðamönnum.
Á blaðamannafundi í gær var hún svo spurð af hverju borgaryfirvöld hefðu ekki verið betur undirbúin og að af hverju ekki hefði verið brugðist betur við.
Sagði hún þá að það yrði að einblína á að bjarga mannslífum og heimilum fólks. Notaði hún það svar ítrekað við spurningum blaðamanna.
Að minnsta kosti tíu hafa látist í gróðureldunum sem geisa í Los Angeles í Kaliforníuríki og yfir 200 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín á svæðinu.
Yfir 9 þúsund heimili, fyrirtæki og aðrar byggingar hafa skemmst eða eyðilagst vegna eldanna.
Enn eru eldar á fimm svæðum, Palisades, Eaton, Kenneth, Hurst og Lidia. Yfirvöld í Kaliforníu segja að 4.700 slökkviliðsmenn séu að störfum og þá hefur verið gripið til þess ráðs að fá 800 fanga til að taka þátt í björgunarstörfum.
Í dag er gert ráð fyrir auknum vindi sem gerir ástandið enn alvarlegra þar sem miklir þurrkar eru á svæðinu og rakastig lágt. Lítið hefur rignt það sem af er vetri og engin rigning er í kortunum. Slökkviliðsstjóri borgarinnar hefur varaði við frekari eyðileggingu vegna þessa.