Hleypt úr fangelsum til að berjast við eldana

Fangar í Kaliforníu sinna iðulega slökkviliðsverkefnum fyrir sáralítið kaup.
Fangar í Kaliforníu sinna iðulega slökkviliðsverkefnum fyrir sáralítið kaup. Samsett mynd/AFP

Um 800 fangar eru meðal þeirra 7.500 viðbragðsaðila sem berjast við gróðureldana sem herja á Suður-Kaliforníu.

Fimm gróðureldar á Los Angeles-svæðinu hafa eyðilagt ótal heimili, fyrirtæki og önnur mannvirki en slökkviliðið náði tökum á einum þeirra í gær.

Minnst tíu er látnir.

Margir Íslendingar kunna að hvá við því að föngum sé falið það verkefni að starfa samhliða slökkviliðsmönnum en úrræðið er ekki nýtt af nálinni í Kaliforníu sem hefur iðulega sett fanga á framlínuna til að hlaupa undir bagga með atvinnuviðbragðsaðilum. 

Gagnrýna fyrirkomulagið

„Vinnuafl úr fangelsum hefur verið notað til að bregðast við neyðartilvikum og hamförum á landsvísu um aldaraðir,“ segir Bianca Tylek, framkvæmdastjóri Worth Rises, hagsmunasamtaka sem berjast fyrir réttindum fanga, í samtali við fréttamiðilinn NPR.

Tylek og aðrir gagnrýnendur fyrirkomulagsins segja úrræðið nýta sér bága stöðu fanganna og efast um hversu sjálfviljugir sumir þeirra séu til þess að skrá sig.

Fangelsismálastofnun Kaliforníu hefur svarað gagnrýninni og segir fangana taka að sér starfið af fúsum og frjálsum vilja og fái greitt á bilinu 5,80 dollara og 10,24 dollara, eða á bilinu 820 til 1447 krónur, á dag auk 140 króna á klukkutíma í virkum neyðarútköllum.

Um 800 fangar eru meðal þeirra 7.500 viðbragðsaðila sem berjast …
Um 800 fangar eru meðal þeirra 7.500 viðbragðsaðila sem berjast við gróðureldana sem herja á Suður-Kaliforníu. AFP

Þjálfaðir í ýmsum hamfarastörfum

Fangarnir eru þjálfaðir í starfið í lágmarksöryggisfangelsum, þar sem fangar með vægari dóma eru iðulega sendir. Til að taka þátt í þjálfuninni þarf fangi að hafa sýnt af sér góða hegðun, eiga færri en átta ár eftir af dómi sínum og hafa líkamlega og andlega burði til.

Fyrirkomulagið á rætur að rekja til ársins 1915 en varð talsvert umfangsmeira í seinni heimsstyrjöldinni þegar bróðurpartur skóga- og brunavarnadeildar Kaliforníu var kallaður inn í herinn.

Var brugðið á það ráð að stofna 41 þjálfunarbúð nálægt fangelsunum en 35 þeirra standa enn í dag og eru fangar þjálfaðir í að bregðast við eldsvoðum og öðrum hamförum á borð við fellibylji og flóð en þess á milli sinna þeir samfélagsþjónustu í nágrenni við þjálfunarbúðirnar.

Fangelsismálastofnun Kaliforníu segir fangana ekki hljóta refsingu fyrir að neita að taka þátt í slökkvistörfum.

Þrælahald afnumið með einni undantekningu

Fangelsismálastofnun Kaliforníu, líkt og fjöldi annarra ríkja í Bandaríkjunum, fer engu að síður fram á að allir fangar vinni á meðan þeir afplána sinn dóm og bendir Tylek á að þrælahald hafi verið afnumið úr stjórnarskrá Bandaríkjanna með einni undantekningu: þrælahaldi yfir þeim sem afplána refsingu í fangelsi.

Árið 2024 lögðu Kalifornía og Nevada fram tillögu um að banna ólaunað starf fanga og var bannið samþykkt í Nevada en hafnað í Kaliforníu.

Flestir fangar í Bandaríkjunum fá lítil sem engin laun fyrir störf sem þeir inna af hendi þrátt fyrir að framleiða vörur og varning fyrir marga milljarða Bandaríkjadala á ári, auk þess sem þeir spara yfirvöldum marga milljarða á ári í viðgerðir og viðhald á fangelsunum sem þeim er haldið í.

Flestir fangar í Bandaríkjunum fá lítil sem engin laun fyrir …
Flestir fangar í Bandaríkjunum fá lítil sem engin laun fyrir störf sem þeir inna af hendi þrátt fyrir að framleiða vörur og varning fyrir marga milljarða á ári. AFP/JIM WATSON

Líklegri til að slasast

Tylek viðurkennir að vissulega séu sumir fangar sem taka þátt í slökkvistarfinu að vinna af fúsum og frjálsum vilja og að þeir hafi jafnvel fundið köllun sína við að hjálpa samfélaginu.

Það réttlæti þó að hennar mati ekki að fangelsin nýti sér vinnuafl þeirra í svo áhættusamt starf fyrir svo lítið kaup.

Rannsókn tímaritsins Time árið 2018 leiddi í ljós að fangelsaðir slökkviliðsmenn eigi talsvert meiri hættu á alvarlegum meiðslum og séu meira en fjórum sinnum líklegri til að fá djúpa skurði, marbletti og beinbrot en atvinnuslökkviliðsmenn. Þeir séu átta sinnum líklegri til að fá áverka á öndunarfæri við starfið.

„Á meðan hundraðir fangelsaðra manna standa fremst á víglínunni að berjast við þessa gróðurelda til að verja líf og eignir fólks í Los Angeles og Kaliforníu, vona ég að Kaliforníubúar geti áttað sig á virði þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert