Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, segir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti vilji funda með honum og að verið sé að skipuleggja hvar og hvenær þeir geti hist.
20. janúar tekur Trump við embætti forseta Bandaríkjanna og í kosningabaráttunni lagði hann mikla áherslu á að binda enda á innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.
„Hann vill hittast og við erum að koma því í kring,“ sagði Trump í gær á fundi með ríkisstjórum Repúblikanaflokksins á Mar-a-Lago í Flórída.
Trump hefur aldrei lagt fram neinar beinar tillögur um vopnahlé eða friðarsamning og hefur oft gagnrýnt þá miklu hernaðaraðstoð sem Bandaríkin hafa veitt Úkraínu, án þess að vita hvert endamarkmiðið sé.
Í nóvember fundaði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti með Trump í New York.
„Það er alveg ljóst að stríðið mun enda fyrr undir stefnu þeirra sem munu brátt leiða Hvíta húsið. Það er þeirra nálgun, þeirra loforð til Bandaríkjamanna,“ sagði Selenskí í samtali við úkraínska fjölmiðilinn Suspilne í kjölfar fundarins.