Snýst meira um persónuna og minna um pólitík

Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og rithöfundur, minnir á að Donald Trump …
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og rithöfundur, minnir á að Donald Trump sé fyrst og fremst fasteignamógúll sem kunni að sjá tækifæri á að eignast stóra fasteign. Samsett mynd/AFP/mbl.is

Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og rithöfundur, segir að fólk ætti meira að hugsa um persónuna og minna um gamaldags kenningar um hagsmuni, valdastrúktúr og pólitík þegar það veltir fyrir sér ásetningi Donalds Trump, verðandi Bandaríkjaforseta.

Trump sóttist nýlega eftir Grænlandi úr höndum Danmerkur í annað sinn en fyrst gerði hann það árið 2019 í fyrri valdatíð sinni sem forseti.

Einstaklingur skiptir öllu máli í sögunni

„Þetta segir okkur að einstaklingurinn skiptir öllu máli í sögunni. Pútín ákveður að ráðast á Úkraínu, af því bara og Trump ákveður að kaupa eða jafnvel ráðast á Grænland, af því bara.

Við erum að horfa á heimsmynd þar sem Trump er ekki einu sinni orðinn forseti, eitthvað sem hann segir hefur áhrif á alla og við vitum ekkert hvað hann kemur til með að gera næstu árin. Evrópusambandið og heimurinn nötra.“

Spurður álits um áætlanir Trumps segir Valur erfitt að svara því með skynsemisrökum eins og margir hafi reynt.

„Þetta er eitthvað sem Trump slengir bara fram. Bandaríkjamenn eru þegar með herstöð á Grænlandi, Thule herstöðina gömlu. Ef þetta væru kjarnahagsmunir Bandaríkjanna hefðu fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, Biden, Obama og Bush-arnir allir sóst eftir Grænlandi en þetta hefur verið svona síðan 1946,“ segir Valur.

Þegar Trump kemur fram þarf allur heimurinn að bregðast við einhverju sem hann segir útskýrir Valur og rifjar upp viðbrögð hans við tómlæti Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, sem var ekki tilbúin að ræða sölu á Grænlandi 2019.

„Hún bjóst ekki við þessum miklu viðbrögðum Trumps sem hætti þá við opinbera heimsókn. Nú er hann aftur farinn af stað og ekki einu sinni enn þá orðinn forseti.“

Fyrst og fremst fasteignamógúll

Valur telur útspilið vera hluta af America First-stefnu og gömlu „monarch-stefnunni“ um að loka Norður-Ameríku af frá umheiminum. Kjarnahugmyndir Trumps séu að hann vilji loka Ameríku af bæði með efnahagstollum og hernaðarlega.

„Trump er samt fyrst og fremst fasteignamógúll og Bandaríkin urðu til með því að kaupa Louisiana, Manhattan og Alaska. Hann hugsar þetta kannski frekar sem slíkur og að þarna sé hægt að eignast stóra fasteign.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert