Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að þeir Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hafi unnið saman síðustu daga að tímabundnu vopnahléi á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas.
Biden hélt ávarp fyrir skömmu í Hvíta húsinu í tilefni þess að samningar náðust í kvöld um að tryggja tímabundið vopnahlé og lausn yfir 30 gísla úr haldi Hamas.
„Ég er gífurlega ánægður með að þessi dagur sé kominn, loksins kominn,“ sagði Biden.
Fyrsti áfangi samningsins varir í sex vikur og felur í sér „fullkomið og algert vopnahlé, brottflutning herafla Ísraelsmanna frá öllum þéttbýlum svæðum á Gasa og lausn fjölda gísla í haldi Hamas,“ sagði Biden.
Ekki er búið að klára að semja um annan áfanga vopnahlésins sem á að taka við að sex vikum liðnum.
Biden kvaðst þó vera sannfærður um að samningurinn myndi halda og að samið yrði um stríðslok í öðrum áfanga.
Biden sagði að ríkisstjórn hans hefði unnið sem „eitt teymi“ með Donald Trump sem tekur við embættinu 20. janúar.
„Síðustu daga höfum við talað saman sem eitt teymi,“ sagði Biden en Trump var einnig með sendinefnd í Mið-Austurlöndum sem tók þátt í viðræðunum.
„Ég sagði teyminu mínu að samræma sig vel við teymið sem væri að taka við til þess að tryggja að við værum öll að tala sömu röddu, því það er það sem bandarískir forsetar gera.“