Tvíræðni pakistansks flugfélags vekur úlfaþyt

Pakistanska flugfélaginu Pakistan International Airlines er brigslað um að hóta …
Pakistanska flugfélaginu Pakistan International Airlines er brigslað um að hóta Frökkum hryðjuverkaárás með auglýsingu sem ætlað er að vekja athygli á því að félagið hefji nú beint flug til Parísar á ný. Skjáskot/Pakistan International Airlines

Pakistanska flugfélaginu Pakistan International Airlines er nú mjög legið á hálsi á samfélagsmiðlum fyrir það sem milljónir notenda miðlanna hafa túlkað sem grímulausa hryðjuverkahótun, auglýsingu sem sýnir farþegaþotu fljúga mót Eiffel-turninum, stolti frönsku höfuðborgarinnar Parísar, með hinum tvíræðu skilaboðum „París, við komum í dag“.

Að sögn talsmanna PIA er þó um hrapallega mistúlkun að ræða þar sem ekki hafi annað vakað fyrir félaginu en að vekja á því athygli að það hefði á nýjan leik hafið beint flug til Parísar, en ferðir til áfangastaðarins franska munu um tíma hafa lagst af.

Hafa sumir ritarar samfélagsmiðilsins X, og fleiri miðla, rifjað upp hryðjuverkaárás öfgavæddra múhameðstrúarmanna á Bandaríkin 11. september 2001 sem augu heimsins horfðu til um margra mánaða skeið á eftir og fáum fjölmiðlaneytendum þess dags líður úr minni. Þá þykir það síst draga úr smekkleysi auglýsingarinnar að höfuðskipuleggjandi árásanna haustið 2001, Khalid Sheikh Mohammad, var handtekinn í Pakistan árið 2003.

Ráðherra fyrirskipar rannsókn

„Er þetta auglýsing eða hótun?“ skrifar einhver á X á meðan annar krefst þess að markaðsstjóri flugfélagsins taki sæng sína og gangi, en 21 milljón manns hefur skoðað auglýsinguna eftir að hún birtist á X í vikunni sem leið.

Hefur auglýsingin ekki síður vakið viðbrögð meðal pakistanskrar þjóðar þar sem forsætisráðherrann Shehbaz Sharif hefur mælt fyrir um rannsókn á auglýsingarmálinu auk þess sem aðstoðarráðherra hans, Ishaq Dar, hefur gagnrýnt auglýsingu flugfélagsins eftir því sem pakistanski fjölmiðillinn Geo News greinir frá.

„Stöðvuðu stjórnendur flugfélagsins þetta ekki?“ spyr pakistanski blaðamaðurinn Omar Quraishi í forundran á X og hélt áfram: „Vita þeir ekki af harmleiknum 11. september – þar sem flugvélum var beitt gegn byggingum? Hugsuðu þeir ekki út í að þessu yrði tekið á keimlíkan hátt?“

Þóttu flugliðum vel í skinn komið

Fátt er um svör við spurningum Quraishi, talsmenn flugfélagsins hafa ekki sagt aukatekið orð um auglýsinguna umdeildu sem raunar er ekki sú fyrsta sem talin er fela í sér dulbúna hótun. Rifja notendur X, sem komnir eru af léttasta skeiði, upp auglýsingu félagsins frá árinu 1979 þar sem skuggi af farþegaþotu sést yfir tvíburaturnum Heimsviðskiptamiðstöðvarinnar á Manhattan í New York sem þá stóðu enn.

Enn var úlfaþytur vakinn þegar starfsfólk PIA fórnaði geit árið 2017 til þess að verjast frekari ógæfu í kjölfar eins alvarlegasta flugslyss í samgöngusögu Pakistans og árið 2019 vakti það urg er stjórnendur félagsins töldu flugliðum þess allvel í skinn komið og skipuðu þeim að grenna sig á sex mánuðum ellegar flygju þeir ekki meir í þjónustu PIA.

BBC

CNN

Arab News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert