Eitraði fyrir eins árs dóttur sinni

Frá Brisbane í Ástralíu.
Frá Brisbane í Ástralíu. Ljósmynd/Colourbox

Áströlsk kona hefur verið ákærð fyrir að eitra fyrir eins árs dóttur sinni og birta myndbönd af vanlíðan hennar á netinu í þeim tilgangi að fá fjárframlög frá öðru fólki.

Á móðirin að hafa lagt mikið á sig til að leyna því að hún væri að gefa dóttur sinni margs konar lyf, þar á meðal lyfseðilsskyld, án samþykkis frá lækni. 

Frá ágúst til október

Paul Dalton, rannsóknarlögreglumaður í Queensland-ríki í Ástralíu, segir að upp hafi komist um móðurina þegar starfsfólk á spítala í höfuðborginni Brisbane gerði lögreglu viðvart um grunsemdir sínar í október á síðasta ári en stúlkan var þar til meðferðar sökum alvarlegs andlegs ástands.

Lögregla fór strax í aðgerðir til að vernda barnið og hóf rannsókn á móðurinni.

Er móðirin sökuð um að hafa tekið myndir og myndskeið af dóttur sinni á meðan hún upplifði mikinn sársauka og vanlíðan og birt í kjölfarið á netinu. Á móðirin að hafa stundað athæfið frá ágúst til október og var hún ákærð í dag fyrir ellefu brot.

Safnaði yfir 5 milljónum króna

„Það eru engin orð til að lýsa hversu andstyggileg brot af þessu tagi eru,“ sagði Dalton við fjölmiðla í dag.

„Það er engin afsökun fyrir því að meiða barn, sérstaklega barn svo ungt að það er algjörlega háð því að fullorðnar manneskjur sjái um það og elski það.“

Móðirin er sökuð um að hafa safnað rétt yfir 60.000 áströlskum dölum, sem samsvarar yfir 5 milljónum króna, á vefsíðunni GoFundMe sem nú vinnur að því að skila fénu til þeirra er upprunalega gáfu móðurinni fjárframlög.

Móðirin mun mæta fyrir héraðsdómstól Brisbane á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert