Hægari vindur gæti auðveldað slökkvistarf

Slökkviliðsmenn, sem í níu daga hafa barist við að slökkva gróðureldana, sem hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu víðs vegar um Los Angeles, gætu fengið smá hvíld frá störfum á morgun vegna veðurs.

Töluverður árangur í slökkvistarfi

Dregið hefur úr þeim sterku vindum sem urðu til þess að eldarnir breiddust út í upphafi og hömluðu jafnframt björgunarstarfi. Mun hægari vindur er í kortunum næstu daga, að því er segir í umfjöllun BBC.

Slökkviliðsmenn hafa náð ágætum tökum á tveimur stærstu eldunum sem loga samtals á um 40.000 hektara svæði

Að minnsta kosti 25 manns hafa látið lífið og meira en 12.000 mannvirki hafa eyðilagst í einum af þeim verstu gróðureldum sem hafa orðið í borginni.

Hvessir aftur í næstu viku

Tveir stærstu eldarnir, Eaton og Palisades, loga enn eftir rúma viku. Slökkviliðsmenn úr átta ríkjum Bandaríkjanna hafa tekið þátt í slökkvistarfinu, ásamt slökkviliðsmönnum frá Kanada og Mexíkó.

Veðurstofan hefur aflétt rauðum viðvörunum í bili, en þær verða mögulega gefnar út aftur ef hvessir á ný.

Ekki er spáð rigningu í Kaliforníu næstu vikuna, en yfirvöld í Bandaríkjunum fylgjast einnig grannt með Santa Ana-vindunum, sem taldir eru eiga sök á mikilli útbreiðslu eldanna.

Samkvæmt veðurspám á að hvessa aftur í byrjun næstu viku.

Léttir vindar á morgun gætu hjálpað við slökkvistarfið á eldunum …
Léttir vindar á morgun gætu hjálpað við slökkvistarfið á eldunum í Los Angeles sem hafa nú geisað í um níu daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert