Klukkan tifar: TikTok bannað á sunnudaginn

Trump vill koma í veg fyrir bannið en möguleikar hans …
Trump vill koma í veg fyrir bannið en möguleikar hans eru takmarkaðir. AFP/Oliver Douliery

Ráðgjafar Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, leita nú allra leiða til að koma í veg fyrir að TikTok verði bannað í Bandaríkjunum á sunnudag. Forstjóri TikTok mun mæta í innsetningarathöfn Trumps á mánudag.

Dagblaðið Wall Street Journal (WSJ) greinir frá.

Eins og greint hefur verið frá hafa bandarísk stjórnvöld þegar samþykkt lög sem þvinga ByteDance, kínverskt móðurfélag TikTok, til að selja samfélagsmiðilinn fyrir 19. janúar ella verði TikTok bannað í Bandaríkjunum.

Trump vill koma í veg fyrir bannið

Ráðgjafar Trumps fara nú yfir lögin til þess að sjá hvort að það sé einhver möguleiki á því að fresta gildistöku bannsins í um 60 til 90 daga.

Mike Walz, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, sagði í viðtali við Fox News í dag að Trump hygðist ætla að koma í veg fyrir það að lokað yrði fyrir aðgang að TikTok.

Margir lögfræðingar segja þó að það sé ekki auðvelt að fresta fullri gildistöku laganna. Lögin heimila Joe Biden Bandaríkjaforseta að fresta banninu um 90 daga ef ástæða er að ætla að samningar séu að nást um sölu TikTok.

Fulltrúar í Biden-stjórninni segja þó að þeir telji sig ekki geta frestað gildistökunni.

Fáir möguleikar í stöðunni

Valmöguleikar Trumps til að koma í veg fyrir bannið eru þó takmarkaðir. Hann getur fullvissað fyrirtæki eins og Apple og Google um að þau verði ekki sótt til saka fyrir að leyfa TikTok, en lögin væru þá tæknilega séð í gildi en þeim væri ekki framfylgt.

Þá kemur einnig til greina að hann undirriti forsetatilskipun til þess að reyna fresta því að lögunum verði framfylgt. Vandamálið við það er að þá yrðu lögin samt enn í gildi þar sem þau voru samþykkt af Bandaríkjaþingi og undirrituð af Bandaríkjaforseta.

Jafnvel þó Trump gefi út forsetatilskipun um að framfylgja ekki banninu þá gætu fyrirtæki eins og Apple og Google samt sem áður ákveðið að fara að lögum til að forðast mögulega lagalega ábyrgð.

Einn möguleiki er svo einfaldega að Bandaríkjaþing semji nýtt frumvarp og breyti þannig lögunum. Það gæti þó tekið talsverðan tíma. 

Verður viðstaddur innsetningarathöfnina

Hæstiréttur er með lögin til meðferðar hjá sér en flestir telja að þau fái að standa. Hæstiréttur gæti þó beðið um að gildistaka laganna verði frestað á meðan málið er til meðferðar.

Án afskipta Hæstaréttar eða Biden-stjórnarinnar þá mun TikTok loka fyrir aðgang Bandaríkjamanna að forritinu strax á sunnudag, samkvæmt heimildarmanni WSJ.

Samstarfsaðilar TikTok í Bandaríkjunum eins og Oracle gætu annars sætt lagalegri ábyrgð.

Shou Chew, forstjóri TikTok, verður viðstaddur innsetningarathöfn Trumps á mánudaginn ásamt öðrum þekktum forstjórum eins og Jeff Bezos, forstjóra Amazon, Elon Musk, eiganda X, Mark Zuckerberg, forstjóra Meta, og Tim Cook, forstjóra Apple.

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok.
Shou Zi Chew, forstjóri TikTok. AFP/Bay Ismoyo
Mótmælendur hafa stikað götur Washington D.C. undanfarna daga og hvatt …
Mótmælendur hafa stikað götur Washington D.C. undanfarna daga og hvatt hæstarétt til þess að dæma lögin ógild. Það þykir þó ekki líkleg niðurstaða. AFP/Andrew harnik
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert