Moody tekur sæti Rubio í öldungadeildinni

Moody á blaðamannafundinum ásamt DeSantis.
Moody á blaðamannafundinum ásamt DeSantis. AFP/Getty Images/Joe Raedle

Ashley Moody, ríkissaksóknari Flórída, hefur verið skipuð til þess að taka sæti Marco Rubio, utanríkisráðherraefni verðandi Bandaríkjaforseta, í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, greindi frá þessu á blaðamannafundi fyrir skömmu.

Dagblaðið Wall Street Journal greinir frá.

Mun leggja áherslu á að tryggja landamærin

Marco Rubio er kjörinn öldungadeildarþingmaður Flórída en þar sem Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur tilnefnt hann til þess að gegna stöðu utanríkisráðherra – sem verður að öllum líkindum samþykkt af öldungadeildinni – þá losnar sæti hans.

Fellur það því í skaut DeSantis að skipa nýjan þingmann.

DeSantis sagði á blaðamannafundinum að hann hefði valið Moody þar sem hún myndi leggja áherslu á að skera niður útgjöld hins opinbera og tryggja landamærin.

Kosið um þingsætið á næsta ári

Repúblikanar eru með 53 þingmenn í öldungadeildinni á sama tíma og demókratar eru með 47. 

Moody er repúblikani og mun vera skipuð í þingsætið þar til kosið verður um þingsætið á næsta ári.

Rubio er eitt minnst umdeilda ráðherraefni Trumps og er talið að hann verði samþykktur með þokkalegum meirihluta öldungadeildarinnar.

Marco Rubio mætti fyrir þingnefnd í gær til að svara …
Marco Rubio mætti fyrir þingnefnd í gær til að svara spurningum þingmanna. AFP/Andrew Caballero-Reynolds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert