Kona á sextugsaldri sætir nú ákæru fyrir Héraðsdómi Østre Innlandet í samnefndu fylki í Noregi, Innlandet, norðan höfuðborgarinnar Óslóar, og er gefið að sök að hafa stungið og myrt 55 ára gamlan karlmann, Geir-Arne Lervik, minnst 24 sinnum í svefnherbergi hans í Braskereidfoss í Våler aðfaranótt 7. apríl í fyrra.
Konan, sem lögregla og ákæruvald hafa fram til þessa aðeins skilgreint opinberlega sem vinkonu fórnarlambsins, fór sér að engu óðslega og er talin hafa lagt á ráðin um ódáðina áður en hún tók leigubifreið að heimili mannsins, gekk þar inn um garðdyr er hún vissi ólæstar og veitti honum þá áverka er skömmu síðar urðu honum að aldurtila.
Bað hún leigubifreiðarstjórann að hinkra fyrir utan á meðan hún vann verkið en settist að því loknu upp í bifreiðina á ný og hélt til síns heima þar sem lögregla handtók hana síðar um nóttina.
Viðurkenndi konan sök í fyrstu yfirheyrslum eftir handtökuna og lýsti sig samþykka gæsluvarðhaldsúrskurði sem þá var upp kveðinn og hefur konan verið í haldi lögreglu síðan.
Sambýliskona hins látna var stödd á heimili þeirra og svaf á meðan konan stakk manninn ítrekað. Rumskaði hún ekki fyrr en lögregla kom á vettvang og vakti hana, en lögreglu hafði þá borist tilkynning um atburðinn. Var maðurinn enn á lífi, helsærður, er lögreglu bar að garði og var veitt fyrsta hjálp, en lífi hans varð ekki bjargað.
Lervik var virkur í bæjarstjórnarmálum og var varabæjarfulltrúi fyrir Framfaraflokkinn FrP í bæjarstjórn Våler auk þess sem hann rak tjaldstæði þar í bænum.
Iris Storås héraðssaksóknari ræðir við norska ríkisútvarpið NRK og kveður málið litið alvarlegum augum. Færsla atferlis ákærðu til refsiákvæða leiðir til 21 árs hámarksrefsingar sem táknar að saksóknari ákærir fyrir manndráp að yfirlögðu ráði, overlagt drap, það er að segja að konan hafi lagt á ráðin um það fyrir fram að fyrirkoma Lervik.
„Þetta er hrottalegt manndráp með hníf að vopni, framið á heimili hins látna,“ segir Storås saksóknari til að leggja áherslu á alvarleika brots sem kostað getur sakborning þyngstu refsingu sem norsk lög leyfa, að frátöldu nýlegu lagaákvæði um hryðjuverkaárásir.
Aðeins 257 manns búa í Braskereidfoss sem heyrir undir sveitarfélagið Våler. Hefst aðalmeðferð málsins í héraði í mars og er gert ráð fyrir einni viku undir hana.