„Ég nánast bara veit ekki hvernig ég skilgreini mig án TikTok,“ segir TikTok-stjarnan Ayman Chaudhary í samtali við AFP-fréttaveituna en á morgun taka lög gildi í Bandaríkjunum sem banna TikTok.
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur staðfest lög sem banna samfélagsmiðilinn TikTok í Bandaríkjunum á grundvelli þjóðaröryggis.
ByteDance, kínverskt móðurfélag TikTok, hafði níu mánuði til að selja TikTok en þar sem þeir gerðu það ekki þá þýðir það að frá og með morgundeginum verði um 170 milljón notendum í Bandaríkjunum að öllum líkindum meinaður aðgangur að forritinu.
„Ég er meira sorgmædd heldur en hissa. En samt, það er sorglegt að bandarísk stjórnvöld komi sér saman um að banna forrit frekar en að vinna saman að því að samþykkja lög um heilbrigðis- eða menntamál,“ segir Chaudhary sem er 24 ára gömul.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur sagst vera mótfallinn banni og í gær sagði hann að hann þyrfti tíma til að meta stöðuna.
Mögulega gæti tekið einhvern tíma til að byrja framfylgja banninu. Wall Street Journal hefur eftir sínum heimildarmönnum að TikTok muni sjálfkrafa loka fyrir aðgang Bandaríkjamanna að forritinu á sunnudag til að forðast lagalega ábyrgð.
Þúsundir manns framleiða efni á TikTok og sumir hafa náð að afla sér ágætis tekjum á forritinu.
„Þetta er ógnvænlegur tími fyrir marga smærri áhrifavalda, því ég held að TikTok sé einn af fáum vettvöngum á Internetinu þar sem smærri áhrifavaldar geta blómstrað,“ segir Nathan Espinoza, en hann er með yfir 550.000 fylgjendur.
Bandarískir og vestrænir embættismenn hafa löngum varað við því að TikTok safni of mikið af gögnum um notendur og að kínversk stjórnvöld hafi greiðan aðgang að þeim gögnum.
Þá hafa sumir einnig sakað kínversk stjórnvöld um að dreifa áróðri á samfélagsmiðlinum. Kínversk stjórnvöld og TikTok hafna þeim ásökunum.
Sumir notendur TikTok hafa snúið sér að öðrum kínverskum samfélagsmiðlum eins og Xiaohongshu til þess að mótmæla banninu við TikTok.
„Flestir nemendur kaupa það ekki að það séu kínverskir njósnarar sem stjórna algríminu á TikTok,“ segir Chris Dier, sögukennari sem deilir kennslumyndböndum á TikTok og notar þau einnig í kennslustundum.
Trump tekur við embætti á mánudaginn, degi eftir að lögin taka gildi. Hann kveðst ætla taka ákvörðun í náinni framtíð í tengslum við TikTok en samkvæmt Wall Street Journal eru valmöguleikar hans takmarkaðir.
Hann getur fullvissað fyrirtæki eins og Apple og Google um að þau verði ekki sótt til saka fyrir að leyfa TikTok, en lögin væru þá tæknilega séð í gildi en þeim væri ekki framfylgt.
Þá kemur einnig til greina að hann undirriti forsetatilskipun til þess að reyna fresta því að lögunum verði framfylgt. Vandamálið við það er að þá yrðu lögin samt enn í gildi þar sem þau voru samþykkt af Bandaríkjaþingi og undirrituð af Bandaríkjaforseta.
Jafnvel þó Trump gefi út forsetatilskipun um að framfylgja ekki banninu þá gætu fyrirtæki eins og Apple og Google samt sem áður ákveðið að fara að lögum til að forðast mögulega lagalega ábyrgð.
Einn möguleiki er svo einfaldlega að Bandaríkjaþing semji nýtt frumvarp og breyti þannig lögunum. Það gæti þó tekið talsverðan tíma.