Konurnar þrjár, sem Hamas-hryðjuverkasamtökin slepptu úr haldi fyrr í dag, eru komnar til mæðra sinna í Ísrael.
Þetta upplýsir ísraelski herinn sem birti fyrr í kvöld mynd af Emily Damari við hlið móður sinnar, en hún hafði verið í haldi Hamas síðan samtökin gerðu árás á Ísrael 7. október 2023.
Hún var stödd á heimili sínu þegar byssumenn Hamas réðust inn. Hundur hennar, Choocha, var skotinn og særðist Damari bæði á höndum og fótum.
Konurnar þrjár eru fyrstu gíslarnir sem Hamas sleppa úr haldi vegna samkomulagsins um vopnahlé á milli Ísraela og samtakanna.