Sænskir klíkukóngar eiga ekki sjö dagana sæla eftir að ný lög tóku gildi sem ná til fjárhaldsmála þeirra sem kjósa að spila utan leikreglna samfélagsins. Er nú unnt að dæma þá til að láta af hendi verðmæti sem skattframtal þeirra gefur ekki tilefni til að ætla að þeir hafi eignast fyrir heiðarlega vinnu í sveita síns andlits.
Þannig fór hjá 26 ára gömlum Stokkhólmsbúa sem héraðsdómari mat sem svo að hefði ekki löglegar tekjur er stæðu undir gulli og Rolex-úrum í fórum mannsins að verðmæti rúmlega 600.000 sænskar krónur sem jafngilda 7,6 milljónum íslenskra króna. Úrskurðaði dómarinn að góssið skyldi þegar gert upptækt til ríkissjóðs.
Var forsaga málsins sú að lögregla stöðvaði sakborninginn við umferðareftirlit í nóvember og bauð laganna vörðum í grun að ökumaðurinn væri undir áhrifum fíknilyfja. Var þar kominn grundvöllur fyrir húsleit á heimili kærustu hans í Nacka, austur af höfuðborginni, og við leit í sokk nokkrum þar í íbúðinni fannst gullið ásamt Rolex-úri og reyndust úrin fleiri er öll kurl voru komin til grafar.
Síðast framtaldar tekjur mannsins voru lágar, en raunar hafði hann engar tekjur talið fram hin síðustu ár, en þess í stað tekið á móti fjölda peningamillifærslna gegnum smáforritið Swish sem Svíar nota og er hliðstætt Aur og hinu nú aflagða Kass á Íslandi.
Í kjölfar rannsóknar málsins, sem meðal annars náði til einkaskilaboða ákærða á samskiptamiðlum lýðnetsins, komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að fjárstreymið frá fjölda fólks gegnum Swish væri sprottið af fíkniefnasölu hans.
Hlaut hann þar með dóm fyrir stórfelldan peningaþvott auk þess sem hann mátti sjá á eftir gersemum sínum í formi Rolex-úra og skarts á borð við gullhringa og hálskeðjur gullnar. Var þar ekki um frumraun hans í refsidómum að ræða þar sem áður hafði hann hlotið dóma fyrir vopnalagabrot, meiri háttar líkamsárás og fíkniefnabrot.
Tóku nýju lögin, sem heimila upptöku lausafjár er útilokað þykir að eigandinn hafi haft heiðarleg efni á, gildi 8. nóvember, en áður var ríkissjóði löglegt að gera það lausafé upptækt sem augljóslega hafði verið greitt með illa fengnum gróða.
Polisen.se (frásögn lögreglu af fyrsta skiptinu er reyndi á ný lög)