Hundruð sænskra hermanna til Lettlands

Svíar gengu til liðs við NATO á síðasta ári.
Svíar gengu til liðs við NATO á síðasta ári. AFP

Sænskir hermenn eru nú í fyrsta skipti á vettvangi utan heimalandsins eftir að Svíþjóð gekk í Atlantshafsbandalagið í mars í fyrra. Um 550 sænskir hermennn voru sendir til Lettlands á laugardag.

Um þessar mundir er 1500 manna herdeild varnarbandalagsins stödd skammt frá Riga. Aðgerðum er stýrt af Kanadamönnum en stærstur hluti herdeildarinnar sem stendur er frá Svíþjóð.

Nokkuð var gert úr málinu í sænskum fjölmiðlum og þykir þátttaka hermanna í aðgerðum Nato skapa þáttaskil í aðkomu Svía að alþjóðamálum.

Henrik Rosdahl, offursti í sænska hernum, segir þátttökuna sögulega en á sama tíma sé þetta „hið nýja norm“ fyrir Svía.

Lettland er með landamæri að Rússlandi og Belarús og eins og gefur að skilja hafa landsmenn áhyggjur af nágrönnum sínum í ljósi átakanna í Úkraínu.

Íslendingar með fulltrúa í Lettlandi 

Í heild eru hermenn og fulltrúar frá þrettán löndum varnarbandalagsins í Lettlandi. Þar á meðal eiga Íslendingar borgaralegan fulltrúa.

Fulltrúar íslensku friðargæslunnar hafa verið við störf í fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í öllum þremur Eystrasaltsríkjunum á liðnum árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert