Ákvörðun Trumps veldur ugg um fjárhag WHO

Þetta er í annað sinn sem Trump hyggst draga Bandaríkin …
Þetta er í annað sinn sem Trump hyggst draga Bandaríkin úr WHO. AFP/Ting Shen

Ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) veldur fjárhagslegum áhyggjum innan stofnunarinnar. 

Bandaríkin hafa verið langstærstu styrktaraðilar stofnunarinnar síðustu ár. 

Trump hefur undirritað forsetatilskipun þess efnis að Bandaríkin muni segja skilið við WHO. Þetta er í annað sinn sem Trump gerir tilraun til að draga Bandaríkin úr WHO en það gerði hann líka á fyrra kjörtímabili sínu. Þeirri ákvörðun var þó snúið við áður en ákvörðunin tók gildi, undir stjórn Joe Bidens, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Í tilskipuninni sem Trump hefur undirritað segir að bandarísk stjórnvöld muni stöðva allar peningafærslur til WHO tafarlaust og kalla bandaríska starfsmenn eða verktaka sem hafa unnið hjá stofnuninni aftur heim. 

Bandaríkin yrðu ein tveggja ríkja án aðildar

Úrsögn úr WHO tekur gildi einu ári eftir að formleg tilkynning hefur verið lögð inn hjá Sameinuðu þjóðunum. Verði af úrsögninni myndu Bandaríkin og Liechtenstein vera einu tvö ríkin sem eru ekki aðilar að WHO. 

WHO fær fjárhagsstyrk frá 194 aðildarríkjum þar sem aðildargjöldin eru reiknuð út frá efnahag ríkisins og íbúafjölda þess. Auk þess fær stofnunin styrk frá ýmsum félagasamtökum og frjálsum framlögum. 

Á árunum 2022-2023 voru aðildargjöld að stofnuninni aðeins 12% af fjárframlögum til hennar. Covid-19 faraldurinn kallaði eftir fyrirsjáanlegri og sveigjanlegri fjármögnun til að takast betur á við nýjar áskoranir í heilbrigðiskerfinu. 

Aðildarríkin samþykktu því að hverfa frá fyrir fram ákveðnum framlögum og voru aðildargjöldin hækkuð þannig að þau næðu 50% af fjárframlögum stofnunarinnar fyrir árið 2030. 

Framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus. AFP/Fabrice Coffrini
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert