Fjórir eru særðir, þar af einn alvarlega, eftir stunguárás í Tel Aviv, höfuðborg Ísraels, í kvöld. Árásin átti sér stað á vinsælum stað í borginni þar sem mikið er um veitingastaði og lifandi mannlíf.
Árásarmaðurinn var veginn í kjölfar árásarinnar, að sögn yfirvalda í Ísrael.
Í umfjöllun The Times of Israel um málið segir að árásarmaðurinn hafi verið 29 ára að aldri og að hann hafi verið frá Marokkó. Segir þar jafnframt að maðurinn hafi verið með græna kortið og að hann hafi komið til landsins 18. janúar síðastliðinn.
Hryðjuverkasamtökin Hamas sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar árásarinnar en lýstu þó ekki yfir ábyrgð á árásinni. Lýstu samtökin árásinni sem „hetjulegri stunguárás“ sem „endurspeglaði vaxandi andspyrnu gegn Ísrael“.
Þetta er önnur stunguárásin í borginni á síðustu fjórum dögum en á laugardag var maður stunginn á götu úti í Tel Aviv og hlaut hann alvarlega áverka. Árásarmaðurinn var skotinn til bana af almennum borgara.