Stefán Einar Stefánsson
Spennan náði hámarki í Washington D.C. í gærmorgun þegar undirbúningur að embættistöku Donalds J. Trumps hófst með guðsþjónustu í kirkju heilags Jóhannesar við Lafayette-stræti. Þar var fylgt nærri aldar gamalli hefð.
Síðustu sólarhringa hefur borgin tekið æ meiri svip af þeirri staðreynd að valdaskipti stóðu fyrir dyrum. Birtingarmyndirnar eru margs konar en fyrst og síðast finnur almenningur fyrir því að sífellt verður erfiðara að komast um borgina sökum þeirra gríðarlegu öryggisráðstafana sem gripið er til vegna viðburðarins.
Fulltrúar Morgunblaðsins eru staddir í borginni og hafa síðustu daga rætt við íbúa Washington og aðra þá sem gert hafa sér ferð til borgarinnar til þess að fagna kjöri og valdatöku Trumps. Eitt af því sem ekki fer fram hjá fólki sem fer um stræti Washington er að úti um allt sést til fólks með húfur sem merktar eru einkunnarorðum Trumps, „Make America Great Again“. Raunar er fjöldi fólks sem klæðist alls konar fatnaði, húfum, treflum, peysum og úlpum, sem merktur er Trump.
Gríðarlegur fjöldi fólks hefur gert sér ferð til borgarinnar í tilefni valdaskiptanna og eru öll hótel uppbókuð og verð á gistingu hefur farið upp úr öllu valdi.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.