Náðun stuðningsmanna Trumps vekur ólík viðbrögð

Ákvörðun Trumps um að náða þá sem réðust á þinghúsið …
Ákvörðun Trumps um að náða þá sem réðust á þinghúsið hefur vakið upp ólík viðbrögð. AFP/Jim Watson

Ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að náða þá sem tóku þátt í árásinni á bandaríska þinghúsið í janúar 2021 hefur vakið ólík viðbrögð á meðal stuðningsmanna og andstæðinga hans. 

„Aðgerðir forsetans eru svívirðileg móðgun við réttarkerfið okkar og hetjurnar sem hlutu líkamlega áverka eða urðu fyrir andlegu áfalli þegar þeir vörðu þinghúsið, þingið og stjórnarskrána,“ sagði Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildarinnar, í dag. 

Þann 6. janúar réðust stuðningsmenn Trumps inn í bandaríska þinghúsið til að reyna að hnekkja úrslitum forsetakosninganna árið 2020. Fjölmargir hlutu dóma fyrir þátttöku sína í óeirðunum. 

Einn þeirra sem stóð að vörslu þinghússins í óeirðunum var lögreglumaðurinn Michael Fanone. Í samtali við CNN-fréttastofuna lýsir hann því að í árásinni hafi rafvarnarvopni ítrekað verið beint að sér og var hann barinn illa af óeirðarseggjunum. 

„Ég hef verið svikinn af landi mínu og ég hef verið svikinn af þeim sem studdu Donald Trump. Leiðtogi Repúblikanaflokksins náðaði hundruð ofbeldismanna sem réðust á lögregluna. Sex einstaklingar sem réðust á mig þegar ég var að vinna vinnuna mína 6. janúar munu nú ganga lausir,“ sagði Fanone í samtali við CNN. 

Þingmenn repúblikana ekki á sama máli

Sakborningarnir og stuðningsmenn þeirra hafa hins vegar fagnað ákvörðun Trumps. Jacob Chansley, sem var eitt af andlitum árásarinnar, fagnaði náðuninni í færslu á X í dag. 

„Ég fékk náðun! Takk forseti Trump!!! Réttlætið er komið...,“ skrifaði hann á X. 

Jacob Anthony Chansley, ásamt öðrum sem réðust inn í þinghús …
Jacob Anthony Chansley, ásamt öðrum sem réðust inn í þinghús Bandaríkjanna snemma árið 2021. AFP

Bandaríska þingkonan Marjone Taylor Greene fagnaði ákvörðuninni sömuleiðis og skrifaði í færslu á X að „aldrei mætti gleyma því sem demókratar gerðu“.

Aðrir repúblikanar hafa lýst yfir áhyggjum af ákvörðuninni og telja hana ekki vera af hinu góða.

Á meðal þeirra er Thom Tillis, þingmaður repúblikana í Norður-Karólínu. Í samtali við blaðamann fréttastofunnar Spectrum segir hann að hann sjái ekki hvernig hægt sé að náða þann sem er dæmdur fyrir líkamsárás gegn lögreglumanni. 

„Ég held að þetta hafi verið slæm hugmynd,“ sagði Tillis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert