Hvað er Trump búinn að gera?

Fyrstu dagar Donalds Trumps í Hvíta húsinu hafa vægast sagt vakið mikið umtal, hrifningu og ekki síst gagnrýni.

Trump var settur í embætti á mánudag og hófst strax handa við að undirrita urmul forsetatilskipana þar sem tónninn var gefinn í ýmsum málaflokkum, til að mynda í útlendingamálum og málefnum hinsegin fólks.

Þá felldi hann úr gildi tæplega 80 forsetatilskipanir sem forveri hans í embætti hafði gefið út.

Tilskipunin kærð 

Forsetatilskipanir eru eitt form reglugerða í Bandaríkjunum, en þeir forsetar sem á eftir koma geta fellt þær úr gildi auk þess sem hægt er að hnekkja þeim fyrir dómstólum stangist þær á við lög.

Gert er ráð fyrir að látið verði reyna á gildi sumra af umdeildari tilskipunum Trumps fyrir dómstólum.

Ein af þeim er tilskipun þar sem reynt er að fella úr gildi bandarískan ríkisborgararétt barna sem fæðast á bandarískri grundu óháð þjóðerni foreldra þeirra. Sú tilskipun er af mörgum ekki talin standast 14. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar og hafa því mörg ríki, þar sem meirihluti íbúa kýs demókrata, kært tilskipunina.

Trump hefur einnig fryst komu flóttamanna til Bandaríkjanna í fjóra mánuði, lýst yfir neyðarástandi við landamærin að Mexíkó og undirritað tilmæli til viðeigandi stofnana um að hefja á ný byggingu landamæramúrs við Mexíkó, framkvæmd sem hann barðist fyrir á sínu fyrsta kjörtímabili.

Donald Trump með eina af sínum mörgu nýundirrituðu forsetatilskipunum.
Donald Trump með eina af sínum mörgu nýundirrituðu forsetatilskipunum. AFP

Telur hvítu fólki mismunað

Hvað málefni hinsegin fólks varðar setti Trump tóninn í ræðu sinni á innsetningarathöfninni þar sem hann sagði að aðeins tvö kyn, karl og kona, yrðu viðurkennd í Bandaríkjunum.

Síðan þá hefur hann undirritað forsetatilskipun þar sem m.a. er kveðið á um að kynin skuli vera tvö og bundinn er endi á aðgerðaáætlanir ríkisins sem ætlað er að stuðla að jafnfrétti og fjölbreytileika og draga úr mismunun. Svokallaðar DEI-reglugerðir.

Segir hann slíkar aðgerðaáætlanir vera eyðslu á skattfé, ala á sundrungu og mismuna hvítu fólki, þá aðallega hvítum karlmönnum. 

Hefur starfsfólki sem vinnur í þessum geira innan ríkisins verið gert að fara í launað leyfi frá störfum ekki seinna en klukkan 17 í dag.

Mikil áhrif á trans fólk

Forsetatilskipuninni um kynin tvö er ætlað að „verja réttindi kvenna“ og „verja frelsi til samvisku“ með því að nota skýrt tungumál og reglugerðir sem taka einungis til tveggja líffræðilegra kynja.

Orðið kyn (e. sex) verður notað í stað kyngervis (e. gender) og munu bandarísk skilríki gefin út af ríkinu héðan í frá þurfa að tiltaka kyn skilríkishafans.

Tilskipanirnar munu hafa mikil áhrif á trans fólk sem gæti m.a. þurft að nýta þau rými sem samræmast kyni þeirra við fæðingu frekar en kyngervi, þegar það á við. Þannig gætu trans konur þurft að afplána dóma í fangelsum fyrir karlmenn og öfugt.

Þá gæti þetta einnig valdið þeim Bandaríkjamönnum, sem hafa hingað til kosið að gefa ekki upp kyn á vegabréfum, vandræðum við komuna aftur til landsins kjósi þeir að ferðast erlendis.

Segir skilið við WHO

Trump hefur undanfarin ár verið afar gagnrýninn á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) sem að hans mati brást alþjóðasamfélaginu í kórónuveirufaraldrinum með því að ná ekki utan um faraldurinn.

Hefur hann nú undirritað forsetatilskipun sem kveður á um að Bandaríkin segi skilið við WHO. 

Í til­skip­un­inni seg­ir m.a. að banda­rísk stjórn­völd muni stöðva all­ar pen­inga­færsl­ur til WHO taf­ar­laust og kalla banda­ríska starfs­menn eða verk­taka sem hafa unnið hjá stofn­un­inni aft­ur heim.

Þetta er í annað sinn sem Trump ger­ir til­raun til að draga Banda­rík­in úr stofnuninni en það gerði hann líka á fyrra kjör­tíma­bili sínu. Þeirri ákvörðun var þó snúið við áður en ákvörðunin tók gildi, und­ir stjórn Joes Bidens, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna.

Banda­rík­in hafa verið lang­stærstu bakhjarlar stofn­un­ar­inn­ar síðustu ár. Úrsögn úr WHO tek­ur gildi einu ári eft­ir að form­leg til­kynn­ing hef­ur verið lögð inn hjá Sam­einuðu þjóðunum. Verði af úr­sögn­inni yrðu Banda­rík­in og Liechten­stein einu tvö rík­in sem eru ekki aðilar að WHO. 

Bora meira

Þá undirritaði Trump forsetatilskipun um að draga Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum, tímamótasamningi loftslagsmála. 

Síðast sleit Trump aðild Bandaríkjanna að samkomulaginu árið 2017 en Biden sneri því við á sínum fyrsta degi í embætti árið 2021.

Trump hefur einnig lýst yfir neyðarástandi í orkumálum í því skyni að bora meira eftir olíu og gasi, afnema viðmið um útblástur bíla, og hét því að stöðva framkvæmdir við vindorkuver úti á hafi.

„Ég er þegar í stað farinn að draga okkur út úr ósanngjörnum einhliða Parísarsamkomulagssvindli,“ sagði forsetinn.

„Bandaríkin munu ekki eyðileggja sinn eigin iðnað á meðan Kína fær að menga.“

Þá hefur hann einnig fyrirskipað alríkisstofnunum að hafna alþjóðlegum fjárhagslegum loftslagsskuldbindingum sem voru gerðar undir stjórn Bidens.

Donald Trump sór embættiseið á mánudag.
Donald Trump sór embættiseið á mánudag. AFP/Saul Loeb

Svikinn af þjóðinni

Trump stóð einnig við loforð um að náða stuðningsmenn sína sem dæmdir voru fyrir þátt sinn í árásinni á þinghús Bandaríkjanna 6. janúar 2021. Þá gaf hann út fyrirmæli um að fella niður sakamál gegn öðrum sem enn væru í gangi.

Liðlega 1.600 manns hafa þegar hlotið dóma fyrir glæpi sem þeir frömdu í árásinni, þar af um 600 sem beittu ofbeldi og réðust á lögregluþjóna.

Trump lýsti stuðningsmönnum sínum í fangelsi sem gíslum.

„Ég var svikinn af þjóðinni minni,“ sagði Michael Fanone, fyrrverandi lögreglumaður sem stóð vaktina 6. janúar. Árásarmennirnir lömdu hann illa og beittu rafvopni ítrekað gegn honum „Sex menn sem réðust gegn mér munu nú ganga lausir.“

Það kvað þó við annan tón meðal þeirra sem réðust á þinghúsið.

„ÉG VAR NÁÐAÐUR BEIBÍ! TAKK FYRIR TRUMP FORSETI!“ ritaði Jacob Chansley á samfélagsmiðilinn X. Chansley varð eins konar andlit árásarinnar á þinghúsið en hann fór þar fremstur í flokki með rauða, hvíta og bláa andlitsmálningu og ber að ofan.

Tollar á innfluttar vörur

Í forsetaframboðinu lagði Trump mikla áherslu á efnahagsmál, að lækka vöruverð og ná tökum á verðbólgu.

Ein af þeim leiðum sem forsetinn lagði upp með var að setja toll á innfluttar vörur. Í gær hótaði hann því að leggja tíu prósenta toll á innfluttan varning frá Kína. Gæti breytingin átt sér stað strax um mánaðamótin. Segir hann ástæðuna vera sú að fentanyl sé smyglað frá Kína til Mexíkó og Kanada, þaðan sem efninu er síðan smyglað til Bandaríkjanna.

Þá hefur hann einnig sagst ætla að leggja toll á innfluttan varning frá Evrópusambandinu en hann hefur nýlega sagt ESB ekki flytja inn nægilega mikið magn af vörum frá Bandaríkjunum.

Áður hefur forsetinn sagst íhuga að leggja 25% toll á innfluttan varning frá Mexíkó og Kanada, en hann sakar ríkin um að ná ekki að koma í veg fyrir að innflytjendur komi ólöglega til Bandaríkjanna og einnig fyrir að stöðva ekki fentanyl-smygl inn fyrir landamærin.

Talaði ekkert um Úkraínustríðið

Þá bíða margir eftir því að sjá hvað Trump hyggst gera í varnarmálum, þá sérstaklega á alþjóðlegri grundu.

Bandamenn hans í Evrópu óttast að Bandaríkin muni draga úr hernaðarstuðningi við Úkraínu og Evrópu í heild. Vakti athygli að forsetinn minntist ekki orði á Úkraínustríðið í ræðu sinni við innsetningarathöfnina á mánudaginn.

Varnarmálaráðherra Frakklands hefur sagt Evrópubúa þurfa að huga betur að varnarmálum og að kjör Trumps hafi verið „spark í rassinn“.

Í dag gaf þó forsetinn til kynna að Bandaríkin myndu hugsanlega innleiða nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum ef Vladimír Pútín Rússlandsforseti neitar að semja um endalok stríðsins.

Trump hét því í framboðinu að binda enda á stríðið um leið og hann tæki við sem forseti.

Þá þótti hann óvenju gagnrýninn á Pútín er hann svaraði spurningum blaðamanna í dag.

„Ég held að hann sé að eyðileggja Rússland með því að semja ekki,“ sagði Trump um Pútín.

Blendin viðbrögð

Viðbrögð þjóðarleiðtoga við nýjum forseta Bandaríkjanna hafa verið blendin.

Ursula von der Lyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, óskaði Trump innilega til hamingju með forsetaembættið á mánudag.

„Evrópusambandið hlakkar til að vinna náið með þér við að takast á við alþjóðlegar áskoranir. Saman geta samfélög okkar náð fram meiri velmegun og styrkt okkar sameiginlega öryggi,“ skrifaði hún á X.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði forsetatíð Trumps eiga eftir að verða áskorun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert