Southport-ódæðismaðurinn Axel Rudakubana, sem í júlí í fyrra stakk þrjár barnungar stúlkur til bana auk þess að særa átta börn til og tvo fullorðna, hlaut í dag 52 ára fangelsisdóm, að lágmarki, og verður því bak við lás og slá til sjötugs – hið minnsta.
Eins og mbl.is greindi frá á mánudaginn játaði sakborningurinn allt á fyrsta degi réttarhaldanna, sem var á mánudaginn, og var málflutningur sækjanda og verjanda því mun umfangsminni en hefði Rudakubana neitað og haldið uppi vörnum.
Lét dómari við Sakadóm Liverpool, Liverpool Crown Court, þau ummæli falla að líkast til fengi Rudakubana aldrei um frjálst höfuð strokið á nýjan leik, en honum voru dæmdir samtals þrettán lífstíðardómar. Sagði dómarinn enn fremur að hefði ákærði ekki verið undir lögaldri, sautján ára, þegar hann framdi ódæðið á dansnámskeiði í Southport 29. júlí, hefði dómurinn hljóðað upp á ævilangt fangelsi án nokkurra möguleika á að afplánun lyki fyrir andlát hins dæmda.
Hefði háttsemi Rudakubana haft í för með sér áfall og óbeit breskrar þjóðar og ekki væri örgrannt um að hann hefði komið öllum 26 börnunum, sem á vettvangi voru, fyrir kattarnef hefði honum verið það unnt í atlögu sem varði heilan stundarfjórðung.
Meðan á gæsluvarðhaldi sakborningsins stóð kvaðst hann gleðjast yfir örlögum barnanna er hann réð af dögum og vera ánægður með verk sitt í Southport 29. júlí.
Axel Rudakubana, átján ára gamall, á þess nú kost að koma fyrir reynslulausnarnefnd og beiðast slíkrar lausnar sjötugur að aldri, árið 2077.