Lík gleymdist á heimili

Í Nyborg á Fjóni lá lík eldri manns um fjögurra …
Í Nyborg á Fjóni lá lík eldri manns um fjögurra vikna skeið í rúmi á heimili hans þar sem starfsfólk heimahjúkrunar bæjarins gleymdi að kalla heimilislækni hins látna til og stöðvaðist hefðbundið ferli því þar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Thue C. Leibrandt

Talsmenn sveitarfélagsins Nyborgar á dönsku eyjunni Fjóni leggjast flatir í afsökunarbeiðnum eftir að lík eldri borgara, sem lést á heimili sínu um miðjan desember, gleymdist þar „fyrir mannleg mistök“ og lá í rúmi í svefnherbergi íbúðarinnar um fjögurra vikna skeið.

Starfsfólki sveitarfélagsins var fullkunnugt um andlát mannsins sem lést að viðstöddum hjúkrunarfræðingi er sinnti heimahjúkrun hjá honum.

Næsta skref í hefðbundnu ferli eftir andlát sjúklings í heimahjúkrun er að tilkynna heimilislækni hins látna um andlátið. Sá fer þá í húsvitjun, framkvæmir líkskoðun og gefur út dánarvottorð áður en líkbifreið er pöntuð til að færa jarðneskar leifar sjúklingsins af heimilinu og koma þeim í það ferli er lýkur með útför.

Forvitni húsvarðar vakin

Í þessu tilviki gleymdist hins vegar að kalla lækninn til og strandaði ferlið því þar. Leið svo og beið og nú um miðjan janúar varð húsverði fjölbýlisins gengið fram hjá íbúð mannsins og vakti það þá athygli hans að gluggi var opinn á íbúðinni. Var verðinum vel kunnugt um að íbúinn væri látinn og skyggndist inn um opinn gluggann til að leita skýringa. Kom hann þá auga á lík mannsins sem enn lá á sama stað og við andlátið – í rúminu.

„Það er hvort tveggja ákaflega sorglegt og vanvirðandi að maður geti legið látinn á heimili sínu í fjórar vikur vegna þess að starfsfólk bæjarins gleymdi að gera lækni hans viðvart,“ segir Peter Enevold, formaður málefnasviðs eldri borgara í Nyborg-Ullerslev, við danska ríkisútvarpið DR og bætir því við að slík vinnubrögð séu hvergi nærri dæmigerð fyrir þjónustu bæjarins við eldri borgara.

Eitt mál einu máli of mikið

Solveig Christiansen, verkefnisstjóri heilbrigðis- og öldrunarþjónustu Nyborgar, kallar atvikið „skelfilegt og lítilsvirðandi“ í tölvupósti til starfsfólks síns og kveður mannleg mistök hafa valdið. Þyki henni óendanlega leitt að slík handvömm hafi átt sér stað og maðurinn yfirgefið jarðlífið með svo sorglegum hætti sem raun bar vitni.

Að lokum gagnrýnir enn einn yfirmaður málaflokksins, Kaj Refslund, vinnubrögð bæjarins og krefst skýringa á þeim. „Borgararnir eiga ekki að þurfa að búa við óhug og ótta við að skilja við á heimilum sínum í kjölfar þessa atburðar. Alls ekki og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að hindra að svo verði. Eitt slíkt mál er einu máli of mikið í mínum huga,“ segir Refslund við DR.

DR

DR-II (einangrað atvik og dapurlegt)

DR-III (ekki fyrsta kollrakið hjá bænum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert